Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Bjóða upp á Fortnite-dansnámskeið

Mynd: EPIC Games / EPIC Games

Bjóða upp á Fortnite-dansnámskeið

09.10.2018 - 07:30

Höfundar

Í einum vinsælasta tölvuleik heims um þessar mundir geta spilarar safnað sér danssporum. Sporin eru búin að festa sig svo rækilega í sessi að dansskólar bjóða víða upp á námskeið í Fortnite-dönsum.

Tölvuleikurinn Fortnite: Batte Royal kom út í fyrra og hefur dregið til sín áhugasama tölvuleikjaspilara á öllum aldri líkt og segulstál. Til eru tvær útgáfur af Fortnite, Fortnite: Save the World og Fortnite Battle Royale. Fleiri spila þann síðarnefnda, raunar frekar margir. Talið er að hátt í fimmtíu milljón spilarar reyni fyrir sér í Tomato Town, Salty Springs, Haunted Hills og öllum hinum kennileitunum í Fortnite heiminum. 

Í leiknum geturðu safnað peningum sem geta nýst við kaup á nýrri ásýnd, eða skinnum. Og svo geta leikmenn einnig fjárfest í dönsum sem hægt er að stíga þegar vel gengur í leiknum. Lífleg dansspor eru nefnilega stór hluti af Fortnite og sömuleiðis daglegu lífi margra sem leikinn spila, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. 

Svo mjög að dansskóli einn í Árósum býður nú upp á Fortnite-dansnámskeið. Dansskólinn í Árósum er ekki sá eini, víða um Evrópu er boðið upp á námskeið af þessu tagi. Því þó mörgum þyki eflaust nóg um tölvunotkun margra ungra Fortnite-spilara og þó að leikurinn hafi verið nefndur sem skilnaðarorsök í yfir tvö hundruð hjónaskilnuðum í Bretlandi á þessu ári segja aðrir að dansarnir gefi Fortnite ótvíræða kosti sem aðrir tölvuleikir hafi ekki. Hann hvetji spilarana til að standa upp og dansa og þar með hreyfa sig samhliða tölvunotkuninni.