Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Bjartsýnn á árangur í París - myndskeið

16.10.2015 - 19:15
Mynd: RÚV / RÚV
Francois Hollande Frakklandsforseti er bjartsýnn á að það náist árangur á loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í desember. Spurningin sé hversu langt verði gengið. Þetta kom fram á blaðamannafundi Hollande og Ólafs Ragnars Grímssonar forseta í Hörpu í kvöld.

Frakkar halda 21. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem hefst í París í lok nóvember. Frakklandsforseti er einn aðalgesta á Arctic Circle-umhverfisráðstefnunni sem hófst í Reykjavík í dag. Hann lenti á Reykjavíkurflugvelli um klukkan tvö og fór beint í þyrlu með Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands upp á Sólheimajökul til að kynna sér bráðnun jökla á Íslandi vegna loftslagsbreytinga.

Hollande sagði á blaðamannafundi í Hörpu síðdegis að hann væri bjartsýnn á árangur í París. „Ég hef heimsótt þá staði þar sem áhrif loftlagsbreytinga sjást hvað best, Filipsseyjar, Kyrrahafið, eyjarnar í Indlandshafi, en ég þurfti að koma til Íslands til að geta sýnd fólki hvert framtíð heimsins stefnir. Allar forsendur eru til staðar til að það náist samkomulag á ráðstefnunni en spurningin er hversu mikill árangurinn getur orðið,“ sagði Hollande. 

Eftir þyrluferðina fóru forsetarnir niður í Hörpu og ræddu við fjölmiðla. Þar greindi forseti Íslands nánar frá því hversu mjög Sólheimajökull hefði hopað og Frakklandsforseti lýsti því hve áhrifamikið hefði verið að skoða jökulinn. Síðan vék hann að loftslagsráðstefnunni sem hefst í París í lok nóvember og því sem væri stefnt að með henni.

Eftir fundinn með fréttamönnum þingaði Frakklandsforseti með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra um umhverfismál sem og annað það helsta sem er til umræðu á alþjóðavettvangi. Þar á eftir flutti Frakklandsforseti aðalræðuna á Arctic Circle-ráðstefnunni á sjöunda tímanaum. Ráðstefnan var formlega sett í morgun. Þar voru fulltrúar fjölda ríkja fyrstir á mælendaskrá og voru loftslags- og umhverfismálin helst til umræðu.