Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bjartsýnn á að Öxi verði boðin út á næsta ári

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Fjögur sveitarfélög á Austur
Aðeins rúmar tvær vikur eru þar til íbúar fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi kjósa um sameiningu. Fram kom á íbúafundi á Djúpavogi í vikunni að áform um þvingaðar sameiningar gætu hvatt sveitarfélög til viðræðna. Minni sveitarfélög séu mögulega í betri stöðu ef kosið er um sameininguna. Þá telja sveitarstjórnarmenn að sameiningin hjálpi til við að ná fram samgöngubótum.

Rúmlega hundrað manns kom saman á Hótel Framtíð á Djúpavogi í fyrrakvöld til að kynna sér málin. Kosið verður 26. október og þá kemur í ljós hvort Borgarfjarðarhreppur, Djúpavogshreppur, Fljótsdalshérað og Seyðisfjarðarkaupstaður mynda nýtt sveitarfélag. Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps, sagði sameiningu hjálpa við að berjast fyrir samgöngubótum svo sem Fjarðarheiðargöngum. „Ég er þeirrar skoðunar, hafandi setið fundi með ráðherra, að það sé full ástæða til að ætla að vegurinn yfir Öxi verði boðinn út á næsta ári. Ég met það af þessum fundum með ráðherra og viðbrögðum innan úr stjórnkerfinu sem við höfum fengið á þessari vegferð. Þannig að ég er mjög bjartsýnn á það,“ sagði Gauti á fundinum.

„Það gefur auga leið að það er aukinn þungi í fimm þúsund manna sveitarfélagi þegar kemur að úrbótum í samgöngumálum. Það gefur einnig augaleið að það er stefna stjórnvalda að sameina smærri sveitarfélög á Íslandi og ef af sameiningu verður þá verða stjórnvöld að gera okkur kleift að komast á milli byggðakjarna,“ segir Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði.

Þykir sameiningin töluð upp

Sumum þótti aðallega horft á kosti sameiningar. „Það er veruleg slagsíða í kynningunni. Ég get ekki sagt annað,“ segir Björgvin Gunnarsson, kúabóndi á Núpi í Berufirði. Honum finnst eins og sameiningin hafi verið töluð upp á kynningarfundum. „það eru áætlunartölur þarna til 10 ára, ég get ekki séð að þær standist. Ég hefði viljað fara alla leið og sameina allt Austurland. Bara fulla ferð á þetta. Hér í Djúpavogshreppi eru tvö stærstu fyrirtækin í mikilli samvinnu við Fjarðabyggð. Það væri eðlilegast allra hluta vegna,“ segir Björgvin.

Skuldir misháar og fjárfestingaþörf líka

Heildarskuldir sameinaðs sveitarfélags yrðu 9,8 milljarðar eða rétt rúmar 2 milljónir á hvern íbúa. Fram hefur komið að skuldastaða sveitarfélaganna er misjöfn. Á Fljótsdalshéraði eru skuldir 2,2 milljónir á hvern íbúa, 1,6 milljónir á Seyðisfirði, 905 þúsund á Djúpavogi og 885 þúsund á Borgarfirði eystra. Við sameiningu myndu skuldir á hvern íbúa á Djúpavogi og Borgarfirði því aukast talsvert. „Ég sem íbúi hef miklar áhyggjur af því. Þetta er skuldaaukning upp á rúmlega helming. Mér finnst það bara ekki ásættanlegt,“ segir Björgvin.

Skuldastaðan segir ekki allt því innviðir standa misvel. Fram kom að þó skuldir Djúpavogs væru litlar í samanburði væru dýrar framkvæmdir þar fram undan. Ef líka er horft á vanáætlað viðhald og fjárfestingar á hvern íbúa er staðan ekki eins misjöfn. Á Djúpavogi þarf til dæmis að ráðast í meðal annars dýrar fráveitu-, vatnsveitu- og hafnarframkvæmdir. Samstarfsnefndin reiknaði út vanáætlaða fjárfestingaþörf, það er þörf að fjárfestingum sem ekki kemur fram í fjárhagsáætlunum sveitarfélaganna. Þar kemur í ljós að á Fljótadalshéraði er hún rúmlega 201 þúsund á hvern íbúa, rúmar 1,3 milljónir á Djúpavogi, rúmlega 1,5 milljónir á Seyðisfirði og tæplega 1,9 milljónir á Borgarfirði á hvern íbúa. Ef skuldir á íbúa og þessi viðbótar fjárfestingaþörf á íbúa eru lagðar saman verður upphæðin um 3,1 milljón á Seyðisfirði, 2,7 milljónir á Borgarfirði eystra, 2,4 miljónir á Fljótsdalshéraði, 2,2 milljónir á Djúpavogi. Yrðu að meðaltali 2,5 milljónir á íbúa í nýju sveitarfélagi.

Sama grunnþjónusta en ekki sama þjónstustig í öllum kjörnum

Fram kom á fundinum að sameinað sveitarfélag þyrfti ekki að skera niður, enginn ætti að missa vinnuna heldur yrði hægt að bæta þjónustu. Á Djúpavogi var spurt hvort þjónustustig yrði eins í öllum byggðakjörnum. Fram kom að slíkt yrði líklega ómögulegt en gjaldskrár gætu þá tekið mið af því. „Við munum leggja áherslu á sömu grunnþjónustu á öllum stöðum en það er ekki sjálfgefið að sama þjónustustig verði alls staðar. Eins og kom líka fram; það er ekki endilega sjálfgefið að það verði byggð sundlaug á Borgarfirði, fimleikahús á Djúpavogi og svo framvegis. Við munum hins vegar horfa til þess að geta nýtt þessa sameiginlegu eign sameinaðs sveitarfélags fyrir heildarsvæðið og þar munum við horfa til þróunar á almenningsamgöngum innan svæðis,“ sagði Björn Ingimarsson, bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði en hann er jafnframt formaður sameiningarnefndar.

Einnig var spurt hvaða stöðu sveitarfélögin hafi ef sameining yrði felld og lög um þvingaða sameiningu eftir 7 ár yrðu samþykkt. Hvort samningsstaða minni sveitarfélaganna myndi ekki tapast. Fram kom í svari Róberts Ragnarssonar, verkefnisstjóra og framkvæmdastjóra RR Ráðgjafar, að ef stefnumörkun um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga verði samþykkt væri líklegt að íbúar Borgarfjarðar eystri, Seyðisfjarðar og Djúpavogs þyrftu að taka afstöðu til sameiningar að nýju innan fárra ára. Varðandi samningstöðu í sameiningu þá megi almennt segja að betra sé að fara inn í samninga með sterka stöðu en veika.

Hægt að sjá svör og spurningar á upplýsingasíðu

Íbúafundir hafa nú farið fram í öllum sveitarfélögunum fjórum. Þar hefur fólk sent inn spurningar rafrænt og valið þær mikilvægustu. Hægt er að skoða spurningar og svör um mögulega sameiningu á vefnum svausturland.is

Horfa á fréttatíma