Bjartsýni við upphaf makrílvertíðar

21.07.2018 - 14:04
Mynd með færslu
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, Vinnslustöðinni. Mynd: RÚV
Makrílvertíðin er hafin og uppsjávarskipum á miðunum fjölgar jafnt og þétt. Eftir misjafnt gengi tvö undanfarin ár búast útgerðarmenn við að þetta verði góð vertíð. Reiknað er með að makrílveiðin standi fram í miðjan september.

Allar helstu útgerðir uppsjávarskipa hafa nú ýmist sent skip sín til makrílveiða, eða gera það næstu daga. Fyrsta makrílnum á vertíðinni var landað hjá í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum á mánudag og Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri þar, segir að ástandið á makrílunum sé gott.

„Við erum afskaplega ánægð með hann. Hann er stór og hann er náttúrulega stutt frá okkur, veiðisvæðin mjög nálægt Eyjum. Þannig að hann er stór og fallegur, það er engin áta í honum og allar aðstæður eru bara eins og best verður á kosið," segir Sigurgeir.  

Makrílvertíðirnar hafa verið misgóðar undanfarin ár og fremur lítil eftirspurn var á mörkuðum í fyrra og hitteðfyrra. En Sigurgeir segir að útlitið sé betra núna og allt bendi til að þetta verði með betri vertíðum.

„Markaðsaðstæðurnar eru bara mjög góðar. Það er talsverð eftirspurn, við finnum fyrir því. Við vitum auðvitað ekki hvað það endist lengi, en við erum frekar bjartsýn á allt sem snýr að makrílnum á þessu ári."

Kvóti íslenskra skipa á vertíðinni er um 130 þúsund tonn og makrílveiðin verður helsta verkefni íslenska uppsjávarflotans næstu tvo mánuði. „Reynslan segir okkur það að við getum reiknað með því að veiða makríl hérna við Ísland svona fram undir miðjan september. Eftir það er fiskurinn kominn út í Smuguna og þegar komið er fram í miðjan október, eða seinni hluta október, þá eigum við erfitt með að ná í makríl vegna þess að þá er hann kominn inn í lögsögu annarra ríkja."

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi