Bjarni um meint hrossakaup: „Það er rangt“

30.11.2018 - 13:26
Mynd:  / 
„Mér finnst þetta algjörlega óboðlegt. Í einu orði er hægt að orða það þannig,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, um upptökur af samtali þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins sem voru gerðar opinberar á miðvikudaginn. Hann hafnar því alfarið, að Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, eigi inni greiða hjá Sjálfstæðisflokknum vegna skipunar Geirs H. Haarde í stöðu sendiherra.

Aðspurður segist Bjarni ekki vilja tjá sig um það hvort ummæli þingmannanna sex eigi að hafa einhverjar afleiðingar fyrir þá.

„Ég held að það fari ekki vel á því að þingmenn séu með stórar yfirlýsingar um það hvaða afleiðingar hlutir eigi að hafa fyrir aðra þingmenn. Þannig að það er bara fyrir viðkomandi að leggja mat á,“ segir Bjarni.

Þannig að þú vilt ekki gefa það út, hvort þeir eigi að segja af sér?

„Nei ég ætla ekki að láta blanda mér í neina slíka umræðu.“

Hvernig heldur þú að stemningin verði á þinginu í framhaldinu?

„Það er mjög undir viðkomandi þingmönnum komið, hvernig þeir taka á málinu. Og ég virði það við menn að þeir hafa, sýnist mér, áttað sig á því að þeir hafa gert herfileg mistök.“

Standa ekki í neinni skuld

Þú kemur þarna fyrir og talað um einskonar hrossakaup þegar Gunnar Bragi Sveinsson skipaði Geir H. Haarde sendiherra – á Gunnar Bragi inni greiða hjá Sjálfstæðisflokknum eða þér?

„Ég ætla bara að segja varðandi Geir Haarde, að ég hefði við hvern sem er og hvar sem er og hvenær sem er, mælt með því að hann yrði sendiherra fyrir Ísland í Washington. Hann hefur verið þar undanfarin ár og staðið sig frábærlega og er þar enn. Þannig að það er langt frá því að það sé eitthvert feimnismál að ég hafi verið að mæla með því að Geir Haarde fengi skipan í þá stöðu. Ég er stoltur af því að vera tengdur við að hafa stutt það. Hins vegar kannast ég alls ekki við að Sjálfstæðisflokkurinn sé í einhverri skuld við Gunnar Braga eða einhvern annan vegna þess máls. Og það er einfaldlega ekki þannig. Það er rangt.“

Hvað finnst þér um að hann haldi slíku fram?

„Ég heyri ekki annað en að hann hafi dregið þetta til baka þannig að það er þá fallið um sjálft sig.“

Hefur hann beðið þig afsökunar á þessum ummælum?

„Já hann hefur gert það í skeyti.“

Ekki maður á mann?

„Við höfum ekki rekist á hvorn annnan.“

Tókstu þá afsökunarbeiðni góða og gilda?

„Já þetta mál snýst ekki um mig og það er ekki vegið að mér í sjálfu sér eins og ég er að upplifa þetta. Þetta snýst um allt annað. Þetta snýst um hvernig menn tala um aðra þingmenn og um konur almennt í stjórnmálum og hvað menn leyfa sér að segja um samstarfsfélaga sína. Við höfum skyldur sem þingmenn við þjóðina inni á Alþingi. Við höfum til dæmis skyldu til þess að ganga þannig fram að við séum að hámarka líkur á því að við séum að gera þjóðinni gagn í okkar störfum. Og þetta orðaval og svona framkoma er alls ekki til þess fallið að okkur takist það.“

Hefur þett skaðað þingið?

„Já þetta hefur auðvitað sett ljótan blett á þingstörfin í þessari viku. En það skiptir miklu hvernig menn taka á málinu hvað varðar framhaldið.“

Nú var þessi þingmannaveisla á Bessastöðum í gær, var undarleg stemning þar?

„Hún var ágæt stemningin þar. Menn gera sitt besta til þess að láta hlutina ganga upp þegar menn koma saman. Og eins og ég segi, menn höfðu stigið fram og beðist afsökunar og gengist við því að hafa gert mjög mikil mistök. Það var allavega fyrsta skrefið. Það hjálpaði,“ segir Bjarni.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi