Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bjarni tekur við fjármálaráðuneyti

01.12.2017 - 10:09
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Bjarni Benediktsson tók í morgun við lyklavöldum í fjármála- og efnahagsráðuneyti af Benedikt Jóhannessyni, fráfarandi fjármálaráðherra.

Bjarni hefur áður gegnt embætti fjármálaráðherra, frá 2013 og fram í janúar á þessu ári, þar til hann tók við embætti forsætisráðherra.

„Ég ætla nú að afhenda þér þennan lykil sem ég fékk frá þér fyrir ekki mjög löngu. Ég tók við góðu búi af þér og skila ennþá betra búi til þín. Ég vona að þú getir sagt eitthvað svipað þegar að þú skilar af þér næst. Ég treysti þér afar vel til að sjá um fjármál ríkisins áfram,“ sagði Benedikt við Bjarna þegar hann afhenti honum lyklavöldin.

Bjarni þakkaði Benedikt fyrir vel unnin störf og nefndi að mikið af skuldum hafi verið greiddar upp á meðan hann var fjármálaráðherra. Bjarni sagði að það væri góð tilfinning að vera kominn aftur í fjármálaráðuneytið. „Ég hef alltaf kunnað vel við mig í þessu húsi og í þeim góða félagsskap sem maður finnur sig í með starfsfólkinu öllu. Það eru góðar tilfinningar sem bærast innra með mér,“ sagði Bjarni Benediktsson í morgun. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV