Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Bjarni: Staðan verið að skýrast

30.11.2016 - 11:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/samsett mynd
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að hann og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hafi í fyrsta skipti „átt dýpra samtal um málefnin og stefnu flokkanna á einstökum sviðum og hvort hægt væri að brúa það bil,“ á fundi sínum í gær. Hann segir að staðan hafi verið að skýrast með hverjum deginum.

Katrín og Bjarni upplýstu forseta Íslands um að samkomulag hefði tekist um að þessir tveir flokkar ætluðu að kanna hvort möguleiki væri á samstarfi um ríkisstjórn. Takist það ætla þau að leita eftir samstarfi við þriðja og jafnvel fjórða flokkinn sem þarf til að mynda meirihlutastjórn en samanlagður þingmannafjöldi VG og Sjálfstæðisflokks er 31 þingmaður.

Katrín og Bjarni áttu fund í gær og Bjarni ræddi stuttlega við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur, fréttamann, á tröppunum fyrir utan Stjórnarráðið í morgun: „Í fyrsta skipti í gær áttum við dýpra samtal um málefnin og stefnu flokkanna á einstökum sviðum og hvort það er hægt að brúa bil þar á milli,“ segir Bjarni. Þeirri vinnu verði haldið áfram í dag - hann ætlar að ræða við sitt fólk og Katrín sitt fólk en þingflokksfundur VG hófst klukkan 10:30 í morgun.

Bjarni segir að staðan hafi verið að skýrast með hverjum deginum - hvaða kostir séu í raun og veru í  stöðunni. Hann segir að þau setji sér engan tímaramma „en við vitum að við erum að vinna undir tímapressu - hún er ekki óbærileg en það er mjög mikilvægt að  ljúka þessu eins hratt og hægt er.“

Bjarni segir að ríkisfjármálin og efnahagsmálin séu mikilvægustu málin, sem þau eru að ræða. „Og svona meginskilaboð nýrrar ríkisstjórnar - hvað við getum gert til að byggja á þeim góða grunni sem er til staðar og tryggja að kaupmáttaraukningin haldi sér.“

Bjarni segir að það yrði mjög góður kjarni ef þessir tveir flokkar, Sjálfstæðisflokkur og VG, næðu saman en vildi ekki segja neitt til um það hvort Samfylkingin yrði þriðji flokkurinn. Það yrði skýrast þegar í ljós væri komið hvort flokkarnir tveir ná saman.  

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV