Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bjarni: Staða kvenna skaðar samfélagið

19.06.2017 - 13:34
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Það er skaði að því fyrir samfélagið að konur njóti ekki jafnréttis hvað varðar völd, áhrif og laun. Þetta segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í tilefni af kvenréttindadeginum í dag, 19. júní.

Dagurinn hófst með því að Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, afhenti styrki úr Jafnréttissjóði Íslands. Þar flutti Bjarni ávarp, en hann er einn þeirra tíu þjóðarleiðtoga sem eru í forsvari fyrir kynningarátaki UN Women; HeForShe, þar sem karlmenn um heim allan eru hvattir til að taka þátt í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna. 

„Það er mikilvægt að minnast sögunnar og þeirra áfanga sem hafa náðst. En líka að vera meðvitaður um það að jafnvel þótt við stöndum flestum öðrum þjóðum framar á sviði jafnréttismála, þá er enn verk að vinna. Það er skaði að því fyrir samélagið þegar konur njóta ekki jafnréttis hvað varðar völd, áhrif eða laun á Íslandi. Þess vegna er svo mikilvægt að þingið hafi tekið ákvörðun um að stofna til þessa sjóðs sem nú er að úthluta í annað sinn og mun úthluta á næstu árum til verkefna sem geta orðið að liði í þessari baráttu,“ sagði Bjarni en alls voru veittir styrkir til 26 verkefna að þessu sinni.

Klukkan hálfþrjú í dag verður blómsveigur svo lagður að að leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur í Hólavallakirkjugarði við Suðurgötu. Klukkan fimm verður svo farið í sjósund við Ylströndina í Nauthólsvík.