
Bjarni: Skrifaði ekki upp á uppreist Downeys
„Staðreynd málsins er sú að ég gegndi ekki embætti fyrir innanríkisráðherra þegar þessi mál voru til lykta leidd í ráðuneytinu. Ekki heldur þegar þau fóru fyrir ríkisstjórn eða voru lögð fyrir forseta Íslands til staðfestingar,“ segir Bjarni á Facebook-síðu sinni í svari við leiðara Fréttablaðsins í morgun.
„Undir í þessu máli eru brot sem við fordæmum og á að taka hart á,“ segir Bjarni og rifjar upp að árið 2006 hafi lögum verið breytt. Þá var meðal annars nauðgunarhugtakið útvíkkað, fyrningarfrestir lengdir og refsingar þyngdar. Bjarni var þá formaður allsherjarnefndar sem fjallaði um málið.
Bjarni segist styðja Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra heilshugar í því að láta endurskoða reglur um endurheimt borgaralegra réttinda manna sem hafa hlotið dóma. Hann segir hugtakið uppreist æru koma „sérstaklega spánskt fyrir sjonir þegar um er að ræða brot, sem er erfitt að fyrirgefa“. Hann segir breytt viðhorf kalla á að endurskoðuð sé sú áralanga framkvæmd að undantekningalaust sé fallist á beiðni manna um uppreist æru ef þeir uppfyllla tiltekin lögformleg skilyrði.
Eftir ríkisstjórnarfund 16. júní síðastliðinn óskaði fréttastofa eftir viðtali við Bjarna Benediktsson á þeirri forsendu að hann hafði verið starfandi innanríkisráðherra í fjarveru Ólafar Nordal. Hann sagðist þá ekki hafa átt aðkomu að málinu en að hann hefði tekið við niðurstöðu úr ráðuneytinu sem hefði fengið sína hefðbundnu meðferð.
Í stjórnarráðinu hefur nú verið farið yfir dagsetningar og í þeirri athugun kom fram að málið var afgreitt rúmum mánuði áður en Bjarni tók við störfum Ólafar Nordal þegar hún fór í veikindaleyfi undir lok október.
Fréttastofa náði ekki tali af forsætisráðherra í kvöld.