Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Bjarni seldi allt í Sjóði 9 dagana fyrir hrun

06.10.2017 - 06:52
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, er sagður hafa selt fyrir rúmlega 50 milljónir króna í Sjóði 9 í Glitni dagana 2. til 6. október árið 2008 eða skömmu áður en neyðarlögin voru sett í tengslum við bankahrunið. Þetta eru sagðar hafa verið allar eignir Bjarna í sjóðnum. Þetta kemur fram í umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media sem unnin var í samstarfi við Guardian. Umfjöllunin er byggð á gögnum innan úr Glitni sem Stundin hefur undir höndum.

Þetta er í þriðja sinn þar sem fjármál Bjarna eða önnur aðkoma hans að viðskiptalífinu fyrir hrun eru til umfjöllunar í fjölmiðlum.

Bjarni bar meðal annars vitni í dómsmáli vegna Vafningsmálsins svokallaða. Bjarni lá ekki undir grun um neitt misjafnt og sagðist eftir skýrslutökuna fyrir dómi ekki hafa neitt að fela. Þá kom fram í umfjöllun um Panamaskjölin svokölluðu að hann hafði tengsl við aflandsfélagið Falson & Co.

Bjarni hafði sagt í Kastljósi árið áður að hann hefði ekki átt neinar eignir eða viðskipti í skattaskjólum. „Ég vil eins og aðrir hafa það sem sannara reynist og þykir þetta miður, en vil jafnframt ítreka að þessi viðskipti mín voru ekki í skattaskjóli, enda gefin upp á Íslandi,“ sagði Bjarni í yfirlýsingu til fjölmiðla.

Í umfjölluninni er Bjarni jafnframt sagður hafa miðlað upplýsingum um störf Fjármálaeftirlitsins til framkvæmdastjóra fyrirtækjaráðgjafar Glitnis þann 6. október eða sama dag og neyðarlögin voru sett.

Vitnað er í tölvupóst frá framkvæmdastjóranum í umfjöllun Stundarinnar: „Bjarni ben segir...að fme séu á skrilljón að vinna í þessu núna...einhver að tala við Jónas,“ er framkvæmdastjórinn sagður hafa skrifað í tölvupósti til aðstoðarmanns Lárusar Weldings, bankastjóra Glitnis.

Bjarni, sem á þessum tíma var meðal annars í efnahags- og skattanefnd, sat fundi á þessum tíma þar sem erfið staða Glitnis var rædd. Hann var einn þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem sat neyðarfund um framtíð Glitnis í höfuðstöðvum Stoða, stærsta hluthafa Glitnis, nóttina áður en íslenska ríkið fékk bankann í fangið þann 29. september 2008. Greint er frá fundinum í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna.

Fjórum dögum eftir að hafa setið þennan neyðarfund um stöðu Glitnis 28. september, þann 2. október 2008, byrjaði Bjarni Benediktsson að selja hlutdeildarskírteini sín í Sjóði 9 hjá Glitni, að því að fram kemur í Stundinni. Síðasta sala Bjarna á eignum sínum í Sjóði 9 var sama dag og Geir H. Haarde hélt fræga ræðu sína og neyðarlögin voru sett. Illugi Gunnarsson, fyrrverandi menntamálaráðherra, var stjórnarmaður í Sjóði 9 en hann vék meðal annars af þingi tímabundið vegna rannsóknar á sjóðnum.

Í Stundinni, er einnig vitnað í viðtal blaðamanns Guardian við Bjarna vegna málsins. Þar segist Bjarni ekki hafa búið yfir neinum innherjaupplýsingum um neyðarlögin á þessum tíma og að sölur í Sjóði 9 hafi verið rannsakaðar. Ekkert hafi komið út úr þeim rannsóknum. „Allir skynsamir fjárfestar hefðu verið að íhuga að selja á þessum tíma.“ Bjarni vildi í viðtalinu við blaðamann Guardian ekki gefa upp nákvæmar upplýsingar um tímasetningar og upphæðir í málinu.

Bjarni hefur áður tjáð sig um eignir sína í Sjóði 9 en hann sagði í viðtali við Víglíninu á Stöð 2 í desember í fyrra að hann hefði átt í sjóðnum og selt eitthvað í honum dagana fyrir bankahrunið. „Ekkert sem skiptir máli. Ég átti á sínum tíma eitthvað í Sjóði 9 en ég man ekki eftir því að það hafi verið eitthvað sem mig rekur minni til að hafi skipt einhverju máli.“

Í umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media er fjallað um tengsl Bjarna við Glitni. Þar kemur meðal annars fram að Bjarni hafi verið skráður í fimm boðsferðir á vegum Glitnis árin 2006 og 2007 - fjórar utanlandsferðir og eina veiðiferð að Langá á Mýrum. 

Tölvupóstsamskipti sem Stundin segist hafa undir höndum sýni að Bjarni hafi notið mikillar velvildar hjá bankanum og hafi ítrekað verið boðið í ferðir á vegum bankans á árunum fyrir hrun. Fram kemur í Stundinni að rannsóknarnefnd Alþingis hafi aðeins fjallað um eina boðsferð Bjarna og að sjálfur hafi hann sagst tvívegis þegið slíkt boð.

Faðir Bjarna, Benedikt Sveinsson, og föðurbróðir hans seldu líka eignir sínar í Sjóði 9 í aðdraganda  bankahrunsins á Íslandi. Benedikt seldi eignir í Sjóði 9 fyrir tæplega 260 milljónir króna þann 27. ágúst 2008. Einar Sveinsson seldi í Sjóði 9 sama dag og Bjarni, þann 6. október eða daginn sem neyðarlögin voru sett, fyrir rúman milljarð króna í tveimur færslum.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
palmij's picture
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV