Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bjarni segir verkföllin áhyggjuefni

23.02.2020 - 12:56
Innlent · BHM · BSRB · Efling · Kjaramál · Kjaraviðræður · Silfrið
Mynd með færslu
 Mynd: Andri Yrkill Valsson - RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir um verkföll Eflingar og yfirvofandi verkfall BSRB náist ekki að semja séu mikið áhyggjuefni. Hins vegar séu fleiri kröfur uppi en að hækka lægstu launin því aðrir launahópar vilji að menntun sé metin til launa.

Vonaði að lífskjarasamningarnir hefðu áhrif

Bjarni var gestur Egils Helgasonar í Silfrinu rétt fyrir hádegi og ræddi meðal annars um ástandið á vinnumarkaði: 

„Ég hefði ekki spáð því fyrir níu mánuðum síðan að við værum í þessari stöðu. Lífskjarasamningarnir slógu tón sem ég batt mjög miklar vonir við að myndu smitast út í allar samningaviðræður í framhaldinu. Það kemur mér verulega mikið á óvart að viðræður sem ganga út frá því að það merki sem settu út í vinnumarkaðsumhverfið skuli ekki hafa dugað til þess að leiða til niðurstöðu.“

Hann segir að ríkið hafi náð miklum árangri undanfarið í kjaraviðræðum:

„Við erum til dæmis búin að ná niðurstöðu, það er ekki mikið í umræðnni í dag, en við erum búin að ná niðurstöðu við rúmlega helming félaga innan BHM. Og við höfum náð tímamótaniðurstöðu um það að gera kerfisbreytingu á vaktavinnufyrirkomulaginu. Við höfum sömuleiðis náð tímamótaniðurstöðu um styttingu vinnuvikunnar.“

Ekki hægt að horfa fram hjá ólíkum kröfum launahópa

Þá hafi lífskjör þeirra sem eru neðst í launastiganum verið stóraukin. Nefnir hann lífskjarasamningana, skattalækkanir, lengingu fæðingarorlofs og auknar barnabætur. 

„En það eru ákveðin lögmál sem er ekki hægt að horfa fram hjá sem að meðal annars snúast um það að það eru stéttir, sem eru rétt fyrir ofan þá, sem eru á lægstu laununum, sem að munu alltaf spyrja sig; bíddu var það þess virði að fara í fimm ára háskólanám, var það þess virði að taka námslán, og taka þriggja ára nám og svo mastersgráðu. Þegar upp er staðið, þessi fimm ár sem að ég varði, námsárin hjá mér, hverju skila þau þegar upp er staðið. Og hver er háværasta krafan BHM sem hefur heyrst í öllum kjaraviðræðum undanfarin ár að hún er þessi, metum menntun til launa. Þannig að það er ekki hægt að nálgast þessa umræðu þannig að það sé bara einn tónn, ein rödd sem heyrist, sem sé sú að það verði bara að hækka laun þeirra sem eru neðst í launastiganum. Nei, við „erum með miklu flóknara kerfi.“