Eru svona samskipti, svona mikil og persónuleg eru þau eðlileg?
Ja, nú ert þú að vitna í gögn sem eru 10 ára gömul og ég er ekki alveg viss um að ég hafi fulla yfirsýn yfir hvað þú ert að tala um. En samskipti við stjórnendur Glitnis á þessum tíma tengjast fyrst og fremst því að ég var þátttakandi í viðskiptalífinu og ég var stjórnarformaður og stjórnarmaður í öðrum fyrirtækjum sem voru stórir viðskiptamenn félagsins, þannig að þau eru eðlileg í öllu þessu samhengi, já.
Varð þetta óheppilegt svona eftir á að hyggja, engu að síður?
Ég hef fyrir löngu síðan gert grein fyrir því að ég telji, sérstaklega eftir að ég tók að mér forystu í stjórnmálum, að það sé langbest að hafa skýr skil á milli viðskiptaþátttöku og stjórnmála. Það er lína sem ég dró fyrir margt löngu.
En þú átt þessi samskipti í gegnum netfang þingsins alveg til jafns við þetta netfang sem þú hafðir til annarra starfa til dæmis eins og í stjórnarformennsku í N1, er það eðlilegt að þú nýtir það netfang, þingnetfangið í þessum samskiptum?
Ég skal ekki segja, þetta er bara svona, það er mjög oft sem frumkvæðið að samskiptunum kemur utan frá og maður fær samskipti til sín á þetta netfang og maður kannski bregst við því úr sömu tölvunni. Ég held að það sé svona heilt yfir eitthvað sem margir kannist við, það berist ýmis erindi á vinnupóstfangið, ég á til dæmis samskipti við skóla barnanna minna oft á tíðum í gegnum vinnupóstfang þannig að það er erfitt að meta þetta svona eftir á, en það er bara svo langt síðan ég sagði mig frá öllum viðskiptum og frá þeim tíma hefur þetta allt saman verið með öðrum hætti.