Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bjarni á Blátindi

Mynd: RÚV / Úti

Bjarni á Blátindi

16.04.2018 - 15:02
„Mér fannst toppurinn vera Blátindur, það kannski kemur engum á óvart,“ segir Bjarni Benediktsson. Hann var í æfingum fyrir Berlínarmaraþon þegar framleiðendur sjónvarpsþáttarins Úti höfðu samband og fengu hann með sér í fjallahlaup í Vestmannaeyjum. Bjarni lýsir hlaupinu sem stórkostlegri upplifun og segir útsýni og skemmtilegt veður ekki hafa skemmt fyrir.

Auk Bjarna var Elísabet Margeirsdóttir með í ferðinni en hún er ein fremsta hlaupakona landsins og hafði til að mynda daginn fyrir ferðina til Eyja hlaupið Laugaveginn, sem er um 55 kílómetrar að lengd.

Hlaup Bjarna og Elísabetar hófst á Eldfelli og lauk á Heimakletti. Aðspurður sagði Bjarni að ánægjulegasti áfangastaðurinn á leiðinni hafi verið Blátindur: „Þaðan fékk maður svona mikið útsýni og það var svona ákveðið adrenalínkikk að fara þar á fjórum fótum alveg upp að stönginni. Alveg ógleymanlegt bara.“

Nýr heimur

Bjarni segir fjallahlaupið hafa opnað fyrir honum nýjan heim: „en það er þannig hjá mér að ég hef fundið fyrir því að ég þarf á þessari fjölbreytni að halda, þannig að það er mjög kærkomið,“ segir hann. „Fjölbreytni hjálpar manni að vera alltaf að einhverju og festast ekki inni í æfingasal eða sundi. Fyrir mig hefur virkað best að skipta þá yfir í eitthvað annað.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Úti
Bjarni smellir af sjálfu á ströndinni.

Hann bætir því við að gott sé að spila með árstíðunum og fara út á sumrin, og nefnir æfingafatnað í því samhengi: „Eins og í dag, maður er bara á léttum bol. Ég gekk á Esjuna fyrir ekki löngu síðan og þar var það bara þunnur bolur.“ Bjarni segir fólk oft kvarta yfir því að á Íslandi sé ekki nægilegur lofthiti, „og ber það saman við Tenerife og þegar þú ferð út og hreyfir þig þá skiptir það bara engu máli.“

Tengdar fréttir

Íþróttir

„Maður er ekki vanur að hreyfa sig svona“

Mannlíf

Tjaldað til einnar nætur í Steiney