Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bjargarlaus ef eitthvað kemur upp á

Mynd:  / 
Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, formaður NPA miðstöðvarinnar, þarf aðstoð allan sólarhringinn. Það hefur borgin viðurkennt. Fjármagnið sem hann fær nægir þó ekki til að tryggja þessa aðstoð. Nokkrar nætur í viku þarf Rúnar, sem er með hálsmænuskaða og þarf aðstoð við flesta hluti, að vera einn. Hann segir að þá sé erfitt að horfa á eftir aðstoðarmanninum á kvöldin. 

Lífið fyrir NPA eins og stofufangelsi

Rúnar líkir lífi sínu áður en hann fékk NPA við stofufangelsi.  „Þá var ég í fjölbrautarskóla og fór eiginlega bara á milli skólans og heimilisins og þegar ég var kominn heim var ég bara heima, horfði á sjónvarp eða hékk í tölvu. Ég upplifði þetta, eftir á og í lokin, eins og ég væri í stofufangelsi. Ég gæti aldrei farið til baka, ég veit ekki hvernig ég ætti að geta lifað það af,“ segir Rúnar. 

Í gamla kerfinu kom manneskja á vissum tímum til að aðstoða hann, hann gat líka hringt eftir þörfum en stundum þurfti að bíða, jafnvel í tvo klukkutíma, allt eftir því hversu mikið var að gera hjá starfsfólkinu.

„Prófaðu að segja allt sem þú gerir upphátt“

Hann segir að það taki aðstoðarmenn tíma að læra inn á starfið, þeir séu í raun enn nýir eftir hálft ár. Álagið við verkstjórnina sé mest í byrjun, þegar hann þurfi að segja starfsmönnunum mest til. „Ég held að fólk ætti bara að prófa að segja upphátt allt sem það gerir, nákvæmlega, eins og það væri að lýsa því fyrir einhverjum öðrum, hversu þreytandi það getur orðið. Það er eitt af því sem mér finnst rosalega gott að hafa losnað undan í hinu hefðbundna þjónustukerfi. Þar voru að koma tuttugu til þrjátíu manns að aðstoða mig í hverjum mánuði og hver einasti dagur var svoleiðis. Fullyrði kannski ekki að það hafi allir verið þannig að ég þurfti að útskýra allt, sumir höfðu verið lengi í starfinu en það var mikið um starfsmannaveltu, margt nýtt fólk og margt fólk sem kom sjaldan til manns. Það er mjög erfitt fyrir það fólk að læra inn á mann.“ 

Ekki þægileg tilfinning að kveðja aðstoðarmanninn

Mynd með færslu
 Mynd:
Rúnar og Sigurður, sá aðstoðarmaður sem hefur starfað lengst fyrir hann.

Með NPA er staða Rúnars betri, en þó ekki fullkomin. Rúnar er með þrjá aðstoðarmenn í vinnu, einn í einu, en þyrfti helst að bæta við þeim fjórða. Hann þarf aðstoð allan sólarhringinn og samningurinn hans hljóðar upp á sólarhringsaðstoð, upphæðin sem fylgir dugir þó bara fyrir sex sólarhringum af sjö, taxtinn er ekki í samræmi við kjarasamning aðstoðarfólks. „Vonandi fer Reykjavíkurborg að endurskoða taxtana hjá sér, ég þarf að vera einn þrjár nætur í viku og þá er ég bara einn og yfirgefinn, ef eitthvað kemur upp á er ég alveg bjargarlaus. Það er ekkert voðalega þægileg tilfinning þegar maður er að hleypa aðstoðarmanninum heim og veit að það kemur ekki annar fyrr en eftir níu tíma. Ef það kemur eitthvað fyrir mun ég lenda í vandræðum, svo geta ýmsir smávægilegir hlutir komið fyrir, ég þarf til dæmis aðstoð við að hósta, ef ég fleygi af mér sænginni þá get ég ekki náð í hana, þá ligg ég bara ískaldur.“

Geta ekki nýtt allar vinnustundir sem þeir eiga rétt á  

Rúnar er ekki sá eini sem ekki fær þá þjónustu sem hann á rétt á. Taxtar hafa verið mismunandi eftir sveitarfélögum og það hefur að sögn viðmælenda Spegilsins leitt til þess að margir notendur hafa ákveðið að taka sjálfir að sér umsýsluna, það er að greiða laun, sjá um tryggingar, skatta og annað í stað þess að fela það NPA miðstöðinni eða öðrum millilið. Framlag sveitarfélags til NPA skipist í launakostnað aðstoðarfólks, 85%, kostnað vegna umsýslu 10% og starfsmannakostnað, það er þegar greiða þarf ferðir eða afþreyingu fyrir aðstoðarfólk 5%. Þegar taxti sveitarfélagsins er í ósamræmi við kjarasamning aðstoðarfólks grípa þessir notendur til þess ráðs að nýta umsýslugjaldið í launakostnað og sjá um umsýsluna frítt. Hjörtur Eysteinsson, framkvæmdastjóri NPA, miðstöðvarinnar, segir að vegna taxtanna geti notendur ekki alltaf nýtt allar þær vinnustundir sem þeir eigi rétt á, þeir þurfi að greiða aðstoðarmönnum laun í samræmi við kjarasamninga óháð því hvar þeir eru á landinu og hvaða taxta sveitarfélögin nota. „Þetta getur verið mjög misjafnt milli sveitarfélaga hversu margar vinnustundir hver notandi getur skipulagt, þetta er náttúrulega mjög bagalegt og eitthvað sem við viljum og höfum verið að reyna að vinda ofan af og fá jafnvægi á.“ 

„Vafasamir viðskiptahættir“

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Norðurlandi eystr
Fjármagnið frá borginni dugar ekki fyrir sólarhringsþjónustu.

Hann segir misræmið milli taxta sveitarfélaga og kjarasamninga hafa leitt til vafasamra viðskiptahátta. „Monkey businessinn, eða það sem við höfum kallað monkey business felst í því að notendur þurfa að finna leiðir til að láta hlutina ganga upp og það hefur meðal annars falist í því að gera verktakasamninga og greiða verktakagreiðslur og annað í þeim dúr sem í rauninni samræmist ekki því regluverki sem notendum og aðstoðarfólki er ætlað að starfa samkvæmt.“ 

Vilja samræmi

Hagsmunasamtök hafa talað fyrir samræmi í sérreglum sveitarfélaga um NPA, það varðar meðal annars taxtana en líka fleira. Til dæmis að fólk sé ekki bundið átthagafjötrum, geti flust til annars sveitarfélags og fengið sömu þjónustu þar. Það er líklegt að það verði mismunandi reglur varðandi það hvort ráða megi nána ættingja eða maka í starf aðstoðarmanns, í reglum Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir að maki og nánir ættingjar séu alla jafna ekki ráðnir í starf aðstoðarmanns.  í sveitarfélögum þar sem erfitt er að ráða fólk, gæti það reynst auðsóttara en annars staðar. 

Innistæða fyrir auknu samræmi

Tryggvi Þórhallsson, lögfræðingur Sambands sveitarfélaga, segir innistæðu fyrir ákalli um meira samræmi, starfshópur á vegum Sambandsins vinni að því að ná æskilegu samræmi milli sérreglna sveitarfélaganna. 

En finnst Tryggva að taxtarnir ættu alls staðar að vera þeir sömu? „Nei, ég er nú ekki alveg á því að taxtinn þurfi að vera sá sami því aðstæðurnar geta verið misjafnar eftir sveitarfélögum.“ 

Sums staðar sé til dæmis greiðara aðgengi að reyndu aðstoðarfólki sem hefur aflað sér þekkingar, annars staðar ekki. 

Mynd með færslu
 Mynd: Djöflaeyjan - RÚV
Tryggvi Þórhallsson

„Við erum hins vegar alveg á því að þegar grunnurinn, sem kannski verður ekki sá sami alls staðar, verður fundinn, eigi hann að taka breytingum eftir sama takti,“ segir Tryggvi. 

Enn langt í land

Í reglugerð um NPA, sem leit dagsins ljós seint á síðasta ári, er kveðið á um að laun aðstoðarfólks séu í samræmi við kjarasamninga en á fundi Sambands sveitarfélaga sem fram fór fyrir nokkrum vikum, virtust ekki allir á einu máli um til hvaða kjarasamninga ætti að líta. Hjörtur á von á því að þessi mál færist til betri vegar, regluverkið sé orðið skýrara, áður hafi greiðslur frá sveitarfélögum ekki þurft að taka mið af kjarasamningum en nú sé gerð krafa um það. Hjörtur segir miðstöðina horfa til þess að sveitarfélögin greiði samkvæmt kjarasamningum aðstoðarfólks ekki samningum sem sveitarfélögin sjálf séu aðilar að. Enn sé langt í land og það þurfi að skera úr um nákvæmlega hvaða kjarasamninga eigi að horfa til. „Það er eitthvað sem við verðum að fara af stað með, taka samtalið við sveitarfélögin.“ 

Borgin taki viðmið NPA miðstöðvarinnar inn í sérreglur

Í sérkjarasamningi NPA miðstöðvarinnar við Eflingu og Starfsgreinasambandið er kveðið á um ákveðna taxta. Aðalbjörg Traustadóttir, skrifstofustjóri á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, segir miðstöðina hafa sent sviðinu minnisblað, síðastliðið haust, og óskað eftir því að borgin tæki mið af ákveðnu jafnaðarstundaverði.

Aðalbjörg segir að borgin hafi orðið við því, tekið þessi jafnaðarstundaviðmið inn í sérreglur um NPA. Þá verði taxtinn uppfærður á grundvelli kjarasamningshækkana. Þetta eigi að eyða bilinu milli taxtans og þess tímakaups sem á að tryggja aðstoðarfólki samkvæmt fyrrnefndum kjarasamningi við Eflingu og Starfsgreinasambandið. Í reglum borgarinnar, sem voru samþykktar í síðustu viku, er þó ekki minnst á þennan samning heldur segir þar að allar upphæðir taki mið af kjarasamningi starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. 

Fatlað fólk með NPA ætti í ljósi orða Aðalbjargar, að geta ákveðið hvort það vill fara sjálft með umsýslu eða fela hana umsýsluaðila á borð við NPA miðstöðina, að minnsta kosti í Reykjavík, og Rúnar ætti ekki lengur að þurfa að vera einn á nóttunni.