Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Bjargaði konu úr briminu

29.01.2013 - 10:44
Mynd með færslu
 Mynd:
Mjög brýnt er að merkja betur og aðvara ferðamenn við hættulegu brimi í Reynisfjöru segir Ingólfur Bruun leiðsögumaður. Erlend ferðakona var í stórhættu þegar hún lenti í öflugum brimskafli um síðustu helgi. Konan var ásamt þremur öðrum á eigin vegum í fjörunni.

 Ingólfur var með að leiðsegja fimm manna hópi skammt frá og kom konunni til hjálpar. „Ég er síðan að ræða við minn hóp þegar tvennt úr hópnum benda yfir öxlina á mér og ég sé hvar kona liggur í flæðarmálinu og útfallið er að renna yfir hana,“ segir hann. Konan hafi augljóslega fallið þarna.

„Ég stökk af stað og náði að drösla henni á fætur. Hún virtist vera illa áttuð og vönkuð og ég kom henni ofar í fjöruna. Ég vil taka fram að hún hafði ekki farið hættulega nálægt briminu, en það sem hún áttaði sig ekki á var að brimskaflarnir sem myndast þarna eru gríðarlega öflugir. Það geta komið nokkrar öldur og svo kemur allt í einu skafl sem fer yfir alla sandfjöruna og nær upp í gróður. Það virðist hafa gerst í þessu tilfelli, en þarna fór betur en á horfðist,“ segir Ingólfur.  

Hann segir að þörf sé á skiltum þarna. „Ef vel ætti að vera þyrfti að vera skilti með 5-10 metra millibili við bílastæðið þeim megin sem snýr að sjávarsíðunni. Þannig að það geti ekki farið fram hjá fólki að þarna er um verulega hættu að ræða og að þarna hafi orðið banaslys.“