Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bjarga fágætum laxastofni úr útrýmingarhættu

25.08.2019 - 22:05
Erlent · Dýralíf · Finnland · lax
Mynd: Skjáskot úr myndbandi / Skjáskot úr myndbandi
Finnskir sérfræðingar eru bjartsýnir á að tekist hafi að bjarga fágætum finnskum laxastofni frá útrýmingu. Laxar af þessari tegund halda til í stærsta stöðuvatni Finnlands og ganga aldrei í sjó.

Þessi laxategund heldur til í Saimaa stöðuvatninu í suðausturhluta Finnlands, nálægt landamærunum að Rússlandi. Fyrir fáeinum árum voru aðeins nokkur hundruð fiskar af þessari tegund lifandi, en með því að frjóvga hrogn með sæði skyldra laxategunda hefur tekist að fjölga verulega í stofninum. 

„Verkefnið heldur áfram og við höfum sleppt fyrstu blendingsseiðunum í Puula-vatn. Fyrir tveimur árum æxluðum við lax frá Saimaa-vatni við lax úr hafinu og frá ánni Nevu; þeim blendingum var sleppt í Puula-vatn í dag,“ segir
Tomi Ranta hjá fiskveiðieftirliti Päijänne-héraðs.

Nýju genin eru úr laxi í ánum Teno í Lapplandi og Nevu í Rússlandi. Þessar tegundir eru náskyldar laxinum í Saimaa-vatni. Þessum blendingum hefur einnig verið sleppt í Päijänne-vatnið, um miðbik Finnlands, og þar hefur þeim vegnað vel. 

„Þegar við slepptum þriggja ára laxi í Päijänne fyrir fáeinum árum vógu þeir 400 til 500 grömm. Um haustið voru þeir um þrjú kíló en það sýnir hve gríðarlegur vöxturinn í Päijänne getur verið þegar gott æti er í boði,“ segir Ranta.

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV