Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Biskupnum fyrirgefið

26.06.2010 - 14:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Gleðimessur verða haldnar víða um land á morgun til þess að fagna nýjum hjúskaparlögum. Formaður Samtakanna 78 fagnar því að Biskup Íslands hafi skipt um skoðun í málefnum samkynhneigðra.

Ný hjúskaparlög taka gildi á morgun en þar með geta samkynhneigðir gengið í hjónaband í kirkju. Þessum áfanga verður fagnað víða um land á morgun með messum, göngum og gleði.

Gleðimessur verða í Langholtskirkju og á Möðruvöllum í Hörgárdal. Í Hafnarfjarðarkirkju verður þemamessa um samkynhneigð og kristna trú og sérstök regnbogahátíð verður haldið í Fríkirkjunni í Reykjavík svo fátt eitt sé nefnt. Messunni í Langholtskirkju verður útvarpað á rás 1 klukkan 11.

Samkynhneigðir fá stuðning víða. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, biðst fyrirgefningar í Fréttablaðinu í dag á orðum sínum um hjónaband Samkynhneigðra sem hann lét falla í viðtali árið 2006. Þá sagði hann að hugtakinu hjónaband yrði kastað á sorphaugana ef samkynhneigðir fengju að giftast. Svanfríður Lárusdóttir, formaður samtakanna 78, segir að biskupnum sé fyrirgefið. Hún segir Biskupinn velkominn í regnbogamessu á morgun til að fagna nýjum lögum.