Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Biskupar samþykkja greiðslur til fórnarlamba ofbeldis

09.11.2019 - 23:50
epa07522343 Members of the clergy attend the mass funeral for the victims of a series of bomb blasts at the Katuwapitiya Church in Colombo, Sri Lanka 23 April 2019. According to police reports, at least 290 people were killed and more than 500 injured in a coordinated series of blasts during the Easter Sunday service at churches and hotels in Sri Lanka on 21 April 2019.  EPA-EFE/M.A. PUSHPA KUMARA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Franskir biskupar kaþólsku kirkjunnar samþykktu í dag að koma á fót greiðslukerfi fyrir fórnarlömb kynferðisafbrota af hendi presta. Fórnarlömb gagnrýna að ekkert í samþykkt biskupanna segi að kirkja beri á nokkurn hátt ábyrgð á ofbeldinu.

Kerfið var samþykkt af miklum meirihluta 120 biskupa sem sóttu ráðstefnu franskra biskupa kaþólsku kirkjunnar í Lourdes í dag. Upphæðir greiðslanna verða ákveðnar á fundi í apríl, en samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar nema þær þúsundum evra á fórnarlamb. Greiðslum verður fyrst komið til fórnarlamba ofbeldismála sem eru fyrnd. Þau fórnarlömb sem enn geta sótt sín mál til dómstóla fá sínar greiðslur síðar. 

Safnað verður í sjóðinn með greiðslum frá biskupum, öllum safnaðarmeðlimum sem vilja reiða fram fé, og frá þeim prestum sem enn eru á lífi og gerðust sekir um ofbeldi. Eric de Moulins-Beaufort, forstöðumaður biskuparáðstefnunnar, segir greiðslurnar ekki vera skaðabætur eða kirkjulagalegar réttlætisgreiðslur.

Jean-Luc Souveton, prestur sem sjálfur varð fyrir ofbeldi kaþólsks prests sem barn, segir það trufla sig verulega að orðið ábyrgð sé hvergi að finna í texta biskupanna. 

Kaþólska kirkjan skipaði óháða nefnd í júní til að rannsaka kynferðisbrotamál presta allt aftur til sjötta áratugar síðustu aldar. Fyrstu þrjá mánuðina bárust nefndinni tvö þúsund skilaboð. Flest fórnarlambanna voru orðin eldri en fimmtug, og tveir þriðju þeirra voru karlmenn.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV