Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Biskup og kirkjuráð deila um völd

10.03.2016 - 11:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þrír lögfræðingar hafa verið fengnir til að greina, skýra og gefa álit á ábyrgð biskups annars vegar og kirkjuráðs hins vegar. Þetta kemur fram á mbl.is. Þar segir að ástæðan sé deilur kirkjuráðs og biskups um völd innan þjóðkirkjunnar.

Nefndin hafi skilað rúmlega sextíu síðna álitsgerð þar sem meðal annars komi fram að biskup teljist lægra sett stjórnvald gagnvart ráðinu, að minnsta kosti um þau verkefni kirkjunnar sem unnt er að bera undir kirkjuráð og falla undir úrlausnarvald þess. Í greinargerð biskups sem vitnað er til á mbl.is segir að kirkjuráð hafi ráðið framkvæmdastjóra sem kjörnir kirkjuráðsmenn telji vera yfirmann biskupsstofu undir stjórn kirkjuráðs. Biskup sé að þeirra mati yfirmaður framkvæmdastjórans milli funda. Þá segir biskup að skoðanamunur biskups og kirkjuráðs hafi haft áhrif á störf ráðsins og bitnað mjög á daglegum störfum biskups og starfsmanna hans á biskupsstofu. 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV