Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Biskup eyðilagði viðkvæmt bréf

04.11.2012 - 18:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Joannes Gijsen, sem var biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi í rúman áratug, eyðilagði bréf frá manni sem lýsti slæmri reynslu sinni af séra Georg, skólastjóra Landakotsskóla. Rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar telur hann með því hafa vanrækt skyldur sínar.

Gijsen hefur verið sakaður um kynferðisbrot í Hollandi á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.

Gijsen var biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi á árunum 1996 til ársins 2007. Hann kom við sögu í einu tilviki þar sem hylmt var yfir ásökunum um kynferðislegt ofbeldi.

Séra Jakob Rolland, kanslari kirkjunnar, afhenti Gijsen, þegar hann var nýtekinn við starfinu, innsiglað bréf, sem hann hafði áður fengið frá forvera Gijsen, Alfred Jolson. Samkvæmt honum átti bréfið að vera frá manni sem hafði haft slæma reynslu af séra Ágústi Georg, skólastjóra Landskotsskóla. 

Í skriflegu svari Gijsen til rannsóknarnefndarinnar segir hann að í þessu bréfi komi fram að maðurinn telji að Ágúst Georg hefði leitast eftir kynferðislegu sambandi við sig, en sé ekki viss um það. Gisjen sagðist hafa rætt við manninn sem skrifaði bréfið og þeir hefðu í sameiningu ályktað að ekki væri vissa fyrir þessu. Því hafi þeir ákveðið að eyða bréfinu og loka málinu.

Með þessu telur rannsóknarnefndin að Gijsen hafi vanrækt þá skyldu sína að tryggja sjálfstæða rannsókn á málinu með aðkomu sérfræðinga.

Gijsen var í september 2010 ásakaður um kynferðislega misnotkun þegar hann kenndi í kaþólskum skóla í Hollandi á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Hann hefur staðfastlega neitað þeim ásökunum. Rannsóknarnefnd í Hollandi komst að því í skýrslu þremur mánuðum síðar að börn hefðu verið misnotuð í heimavistarskólum kaþólsku kirkjunnar þar, og að slíkt hafi verið þaggað niður.