
Birtir samskipti oddvita og virkjunaraðila
Í fyrirspurninni óskar íbúinn svara við því, hver beinn ávinningur sveitarfélagsins verði af fyrirhugaðri virkjun og af hvaða mannvirkjum í tengslum við hana verði greidd fasteignagjöld. Segist oddvitinn ekki hafa tíma til að svara þessu sjálf og biður fulltrúa fyrirtækjanna að svara.
Þetta og fleira má lesa út úr samskiptum oddvitans við þá Ásgeir Margeirsson, forstjóra HS Orku, og Gunnar Gauk Magnússon, framkvæmdastjóra Vesturverks. Pétur Húni Björnsson, stjórnarmaður í náttúruverndarsamtökunum Rjúkanda, greinir frá þessum samskiptum og birtir að hluta á Facebook í dag, eins og fjallað er um á mbl.is. Í færslu Péturs kemur einnig fram að allur kostnaður við vinnu lögmanns, sem oddviti hafði sér til halds og trausts, var greiddur af Vesturverki og HS Orku.
Pétur Húni óskaði eftir ýmsum gögnum sem tengjast fyrirhuguðum virkjanaframkvæmdum í Ófeigs- og Eyvindarfirði á Ströndum. Segir hann í færslu sinni að sum gagnanna hafi hann fengið hratt og vel, en önnur ekki fyrr en hann hafði leitað hjálpar úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Það hafi einkum átt við gögn um samskipti oddvitans við fyrirtækin tvö.