Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Birtingarmynd kvenna í þýðingum Guðbergs

Mynd: Katrín Harðardóttir / YouTube

Birtingarmynd kvenna í þýðingum Guðbergs

08.06.2018 - 13:47

Höfundar

Guðbergur Bergsson er einn afkastamesti þýðandi okkar tíma og á stærsta heildarverk þýðinga frá spænskumælandi löndum. Katrín Harðardóttir, doktorsnemi, ætlar að rannsaka þýðingar hans með tilliti til íslenskrar samtímamenningar og æviferils Guðbergs.

„Þetta eru ekki beint karlrembubókmenntir, en þær gefa frekar einhliða sýn á Suður-Ameríku sérstaklega,“ segir Katrín og vísar þar í þorra þeirra texta sem ratað hafa til okkar Íslendinga í þýðingum frá þeirri álfu. Guðbergur Bergsson hefur verið afkastamikill í þýðingum bókmennta frá spænskumælandi löndum og Katrín ákvað að taka heildarsafn þýðinga hans og skoða það bæði með hliðsjón af ævi og störfum hans, en einnig með tilliti til femínískra þýðingafræða.

„Ég er að fara að skoða þýðingarnar út frá menningarlegum mismun og kynjamismun,“ segir Katrín og segir að Guðbergur fari á flug þegar hann þýðir kynjamismuninn. „Þá leyfir hann sér frekar að skapa, hann fer aðeins út fyrir frummálið, sem auðvitað gerist í þýðingum.“

Stærri höfundar taka skáldaleyfi

„Það enginn þýðandi bara miðill,“ segir Katrín og segist sérstaklega spennt að skoða hvernig samfélagið og þróun þess - og þeirra - hefur haft áhrif á þýðingarnar í gegnum tíðina, en þær spanna um fjörutíu ár. „Á síðustu árum hafa kenningar úr félagsfræði verið teknar inn í þýðingarfræði til að varpa ljósi á þýðandann og það umhverfi sem hann kemur úr.“

En hvernig birtist þessi kynjamismunur í þýðingum Guðbergs? „Það er skemmtilegt, til dæmis í einni í smásögu frá 1973, þar er kona kölluð kjáni, eða boba og Guðbergur þýðir það sem kjánu. Og við skiljum þetta öll, kjána, en þetta er ekki til á íslensku.“

Þýðandinn leynist í textanum

Katrín segir að eftir því sem Guðbergur eldist og þroskast sem höfundur verði rödd hans sterkari í þýðingunum og hann leyfir sér meira. „Með árunum eykst öryggið.“ Hún segir ennfremur ransókninni ekki ætlað að vera dómur yfir Guðbergi, heldur frekar athugun á þessari þróun.

„Þýðingar geta verið fjarvistasönnun eða yfirvarp,“ segir Katrín. „Þótt það virðist vera frumtexti, þá er hægt að koma inn skoðunum og í rauninni líka kreddum, fordómum og hverju sem er inn í þýðingar.“ Þannig virka töfrar tungumálsins og Katrín segir að Guðbergur sé lunkinn þar.

Tungumálið og samfélagið er samofin heild

Hugsun, tungumál og menning haldast í hendur. Femínísk þýðingarfræði gengur út á að skoða hvernig konan birtist í tungumálinu og Katrín segir að sér finnist það snúa að mannréttindum. „Tungumálið hefur ekki bara með málfræði að gera, heldur hugmyndafræði.“

Katrín Harðardóttir mun flytja erindi á Ráðstefnu doktorsnema á Hugvísindasviði, í Árnagarði  næstkomandi laugardag, 9. júní, sem hefst klukkan 10.