Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bíóást: Blóð í svarthvítu er súkkulaðisýróp

Mynd: RÚV / RÚV

Bíóást: Blóð í svarthvítu er súkkulaðisýróp

23.05.2019 - 14:15

Höfundar

Þegar Jóhannes Haukur Jóhannesson hóf leiklistarnám í Listaháskóla Íslands áttaði hann sig fljótt á að hann væri ekki viðræðuhæfur fyrr en hann hefði séð helstu stórmyndir kvikmyndasögunnar. Raging Bull í leikstjórn Martins Scorseses stóð upp úr af þeim myndum sem hann horfði á, en hann segir Robert De Niro hafa sýnt ótrúlega fórnfýsi fyrir hlutverkið.

Kvikmyndin Raging Bull, eða Naut í flagi, í leikstjórn Martins Scorseses kom út árið 1980, sama ár og leikarinn Jóhannes Haukur fæddist. Myndin er sannsöguleg og fjallar um ítalsk-ameríska hnefaleikamanninn Jake LaMotta sem glímir við ofsareiði og sjálfseyðingahvöt. Í hringnum er hann sigurvegari en utan hrings gengur ýmislegt á afturfótunum. Djöflarnir sem hann byrgir innra með sér bitna á þeim sem næst honum standa en mest á honum sjálfum.

Þegar Jóhannes Haukur Jóhannesson hóf leiklistarnám tók hann sig til og horfði á stórmyndirnar sem hann hafði farið á mis við. Hann horfði á Taxi driver, Deerhunter, Godfather seríuna og Raging Bull en það var sú síðastnefnda sem stóð upp úr að hans mati.

„Myndin er gerð í svarthvítu og það sem fólk verður að átta sig á varðandi slíkar myndir er að það þarf að hugsa alla liti í rammanum sérstaklega fyrir þá litapallettu. Blóðið í hnefaleikasenunum er til dæmis súkkulaðisýróp því rautt virkar ekki nógu vel í svarthvítu.“

Jóhannes segir klippinguna í myndinni sérstaklega eftirtektarverða. „Það er Thelma Schoonmaker sem klippir myndina en hún hafði klippt myndina Who's That Knocking at my Door, fyrstu mynd Scorseses, árið 1967. „Svo fara þau í sitthvora áttina en hann gerir Taxi driver og Mean Streets. Síðan þau gerðu Naut í flagi saman hafa þau starfað saman að hverri einustu mynd sem Scorsese hefur gert.“

Frammistaða aðalleikarans Robert De Niro í myndinni vakti einnig mikla hrifningu hjá leikaranum. „Ég tók sérstaklega eftir einbeitingunni og innlifuninni hjá honum í hverri einustu senu, hún leynir sér ekki. Hann fer algerlega inn í þetta hlutverk og skilar því til áhorfandans.“

Robert De Niro fór í gegnum mikla útlitsbreytingu í hlutverki sínu, en persóna hans eldist um 20 ár í myndinni. „Hann bætti þarna á sig örugglega einhverjum 20 kílóum á miðju tökutímabilinu til að leika Jake á sínum efri árum. Þetta skilar sér allt í ákveðnum trúverðugleika í efninu. Þetta er ekki síst merki um ákveðna fórnfýsi Roberts De Niros fyrir sögunni sem hann er að segja.“ Jóhannes bendir á að Robert De Niro fór aldrei til baka aftur í þá líkamsgerð sem hann var í upphafi myndarinnar. „Í öllum myndum sem við sjáum hann áður en þessi mynd kom út sjáum við De Niro sem mjög grannvaxinn ungan mann en svo í þessari mynd fitar hann sig svakalega og þó hann grennist eitthvað verður hann aldrei þessi grannvaxni maður. Hann er orðinn þrekvaxinn karl svo þarna verða ákveðin kaflaskil í hans lífi.“

Jóhannes hvetur áhorfendur að lokum til að gefa því gaum að jafnvel þótt myndin sé svarthvít þá eru nokkur atriði í henni sem eru í lit. „Fólk ætti kannski að taka sérstaklega eftir því og velta því fyrir sér hvers vegna þessi tilteknu atriði séu í lit.“

Kvikmyndin Raging Bull verður sýnd á laugardagskvöldið klukkan 22.10. Hún er hluti af sýningaröð sígildra bíómynda á RÚV sem nefnist Bíóást. Þar eru sýndar kvikmyndir sem eiga það sameiginlegt að höfða til breiðs hóps kvikmyndaunnenda og hafa haft áhrif á samtíma sinn og tíðaranda. Hópur kvikmyndaáhugamanna tekur þátt í verkefninu en einn úr þeim hópi ræðir hverja mynd.