Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bindiskyldan færð niður í 0%

05.03.2019 - 10:26
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Bindingarhlutfall reiðufjár vegna innstreymis erlends gjaldeyris verður lækkað úr 20 prósentum í ekki neitt á morgun. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur gefið samþykki sitt fyrir þessum reglubreytingum.

Ný lög um losun fjármagnshafta á aflandskrónueigendur og lækkun sérstakrar bindiskyldu á fjármagnsinnstreymi taka gildi í dag. Þetta kemur meðal annars fram í tilkynningu á vef Seðlabankans sem birt var í gær.

Með nýju reglunum sem Seðlabankinn vill setja og eiga að taka gildi á morgun, 6. mars, lækkar bindingarhlutfall úr 20 prósent í núll prósent. Markmið bindiskyldunnar var að tempra og hafa áhrif á samsetningu innstreymis erlends fjármagns á innlendan skuldabréfamarkað og hávaxtainnstæður auk þess að styrkja miðlunarferli peningastefnunnar.

Lækkun bindingarhlutfallsins og nýjum lögum um losun fjármagnshafta eru nokkur tímamót í gjaldeyrismálum hér á landi. Fjármagnshöftin sem sett voru árið 2008 hafa nú að nær öllu leyti verið losuð og sérstakur aflandskrónumarkaður er ekki lengur til staðar.

Bindingarhlutfallið var lækkað úr 40 prósent í 20 prósent í byrjun nóvember 2018 en nú hafa myndast aðstæður til þess að lækka hlutfallið í ekki neitt, að því er segir í tilkynningu Seðlabankans. Ástæðan er að líkur á umtalsverðu innflæði fjármagns sem myndi leiða til ofriss krónunnar og alvarlegrar truflunar í miðlunarferli peningastefnunnar hafa minnkað mikið, „að minnsta kosti um sinn,“ segir í tilkynningunni.

Tímarammi heildarendurskoðunar liggur ekki fyrir

„Nú eru fjármagnsstraumar til og frá landinu í betra jafnvægi en var þegar hin sérstaka bindiskylda var upphaflega sett á. Að undanförnu hefur verið útflæði á erlendum nýfjárfestingum í skuldabréfum.“

Eftir þessar laga- og reglubreytingar standa aðeins leifar af fjármagnshöftunum eftir. Það eru takmarkanir sem hafa það að markmiði að sérstaka bindiskyldan á fjármagnsinnstreyminu, sem Seðlabankinn vill færa niður í núll prósent, nái tilgangi sínum. Þar á meðal eru takmarkanir á afleiðuviðskiptum í öðrum tilgangi en til áhættuvarna.

Til stendur að skoða þær takmarkanir sem eftir eru við heildarendurskoðun laga um gjaldeyrismál. Samhliða þeirri vinnu þarf að skoða varanlegt fyrirkomulag hinnar sérstöku bindiskyldu, að því er segir í tilkynningu Seðlabankans.

Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu liggur tímaramminn á vinnu við heildarendurskoðun laganna ekki fyrir.