Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bilun er mjög góð í listum

Mynd: cc / cc

Bilun er mjög góð í listum

16.11.2019 - 09:51

Höfundar

Guðbergur Bergsson hefur sent frá sér bókina Skáldið er eitt skrípatól sem hefur að geyma þýðingar hans á ljóðum eftir portúgalska skáldið Fernando Pessoa. Guðbergur hefur einnig skrifað ítarlega ritgerð um ævi og skáldskaparfræði Pessoa sem var eitt merkilegasta ljóðskáld 20. aldar.

Fernando Pessoa fæddist í Lissabon á degi heilags Antóníusar þann 13. júní árið 1888, andaðist í sömu borg árið 1935. Hann var ljóðskáld, gagnrýnandi, heimspekingur og þýðandi en lengi vel vissu menn ekki hvernig átti að taka orðum hans, hver mælti hverju sinni, því hann skrifaði ekki alltaf undir eigin nafni. Pessoa skapaði í huga sér fjölmörg ólík skáld og orti fyrir munn þeirra. Þekktustu hugarheimaskáld Pessoa voru hjarðskáldið Alberto Caeiro, hinn vitsmunalegi og nútímalegi Alvaro de Campos og hinn nýklassíski Ricardo Reis. Öll voru þessi hugarheims-skáld algerlega á heimsmælikvarða. Talið er að Pessoa hafi skrifað undir að minnsta kosti 70 dulnefnum á sinni tíð.

Saga og samtíð

Bók Guðbergs, sem kynntist ungur portúgalskri menningu, hefur að geyma þýðingar á fjölmörgum kvæðum eftir áðurnefnd skáld, auk þess sem hann skrifar ítarlega ritgerð um ævi, skáldskap og skáldskaparfræði Pessoa, gerir grein fyrir uppvexti hans og helstu áhrifavöldum og skýrir þann bakgrunn, ekki síst umrótið og ringureiðina í Portúgal í upphafi 20. aldar, sem mótaði þetta merkilega skáld. Í bókinni er einnig að finna þýðingu Guðbergs á leikriti Pessoa, Sjómanninum, og umfjallanir um skáld og sögulegar persónur sem koma fyrir í ritgerðinni þar sem því er meðal annars haldið fram að verk Pessoa í heild séu lítt síðri en söguljóðið Os Lusíadas, Ljóslendingarnir, eftir höfuðskáld Portúgala, Luís Vaz de Camões sem uppi var á 16. öld. „Í gegnum hann reyndi ég að sjá portúgalska sögu, ekki bara samtímann í byrjun aldarinnar heldur líka langt aftur í tímann vegna þess að Portúgalar voru þeir sem uppgötvuðu heiminn í raun og veru.“

27543 blöð í kistli

Guðbergur leggur í ritgerð sinni áherslu fjölbreytta menningu Portúgals  sem stafar ekki síst af sögu landsins, en í lok 14. aldar og í upphafi þeirrar 15. lögðu Portúgalar grunninn að landafundum sem áttu eftir að gera landið að heimsveldi, og einkenndust af eilífri þrá eftir hinu óþekkta. „Þú sérð ekki bara verk þessa manns heldur líka það furðuverk sem Portúgal er og portúgölsk menning,“ segir Guðbergur sem sér til dæmis samsvörun milli upplausnarinnar sem ríkti í Portúgal í upphafi 20. aldar, og óreiðunnar í sálarlífi Pessoa sjálfs, sem náði aldrei að skipuleggja höfundarverk sitt, kom ljóðum sínum fyrir í frægum kistli sem innihélt við andlát hans hvorki fleiri né færri 27543 blöð með fjölbreyttu efni. „Miklir höfundar eru að mörgu leyti speglar síns tíma,“ segir Guðbergur, „því það flýr enginn umhverfi sitt eða þjóð sína og þannig sameinast í honum margt sem var að gerast, hnignun portúgalskrar menningar.“

Mynd með færslu
 Mynd: JPV
Skáldið er eitt skrípatól, um ævi og skáldskap Fernando Pessoa.

Verk Pessoa komu flest ekki fyrir almennings sjónir fyrr en eftir seinni heimstyrjöldina. Saga hans var merkileg, móðir hans var góðum gáfum gædd, frá Asóreyjum, hann missir föður sinn fimm ára, átti sturlaða og skæða ömmu, og geggjaðan ská-frænda sem tók ákvörðun um að liggja í bælinu ævilangt og þegja, maður sem hafði mikil áhrif á skáldið. „Til þess að vera mikill þarf maður eiginlega að lifa innan um einhvers konar truflun,“ segir Guðbergur, „vegna þess að ef maður gerir það ekki þá er maður bara venjulegur og það er til nógu mikið af venjulegu fólki.“ Ungur flutti Pessoa með móður sinni og stjúpföður til Durban í Suður-Afríku, sneri síðan aftur til Lissabon og hélt sig þar til dauðadags, hann andaðist í nóvember árið 1935. Hann var útlegðin holdi klædd, og fylgdi ekki öðru en sínu ljóðræna eðli, Guðbergur orðar þetta þannig að Pessoa hafi hreinlega „liðast sundur við yrkingar.“ „Ef maður leggur út í það að vera listamaður þá verður maður að fylgja því sem býr innra með manni og líka því sem er í samfélaginu og þannig manneskjur eins og Pessoa, þær einangrast, þær eru aldrei í túninu heima, þær eru alltaf fyrir utan túngarðinn þangað til þær deyja. Þá eru þær uppgötvaðar og þá sést heimurinn í þessum utangarðsmönnum, en þeir sem eru í túngarðinum heima týnast.“

Guðbergur fór fyrst til Lissabon undir lok sjöunda áratugarins, og heillaðist eins og áður segir af portúgalskri menningu og fjölbreytileika hennar. „Þegar ég kom þarna í fyrsta sinn fékk ég strax áhuga á þessu landi og menningu, sérstaklega vegna þess að þetta er sæveldi, þetta er land sem hefur uppgötvað sjóinn og líka aðra staði sem Evrópubúar höfðu ekki komið á.“ Í fyrstu för sinni til Lissabon kynntist Guðbergur ljóðum eftir hjarðskáldið Alberto Caeiro, sem er líklega vinsælastur þeirra þremenninga. „Þegar ég kem til Lissabon árið 1958 rekst ég á bók eftir hann, þannig að hann stendur mér mjög nærri. Ég hafði reyndar vitað eitthvað pínulítið um hann áður en ég fór til Portúgals en ég hafði ekki kynnst honum eða verkum Pessoa að neinu ráði.“ Jafn undarlega og það hljómar, þá hafði Alberto Caeiro mikil áhrif á ljóðskáldið Fernando Pessoa, hann varð með öðrum orðum fyrir áhrifum frá tilbúningi sínum. „Þannig að þetta er afskaplega margbrotið,“ segir Guðbergur, „og er eiginlega ekki hægt að byggja þetta nema maður sé heilbrigður á bilaðan hátt, bilun er mjög góð í listum. Ef maður er algerlega heilbrigður þá á maður bara að vinna erfiðisvinnu.“

Skáldið og prentarinn

Guðbergur Bergsson starfar hjá prentþjónustinni ARTPRO við Bíldshöfða, sem er ágætlega við hæfi, því sjálfur stofnaði Fernando Pessoa á sínum tíma prentsmiðju en hún varð gjaldþrota. „Ég kann mjög vel við það að vera hér á gólfinu, eins og sagt er. Þegar ég hef ekkert að gera á gólfinu fer ég inn í eldhús og er að þýða þetta, og þetta er að einhverju leyti unnið hér. Þegar maður er á gólfinu getur maður hugsað mjög vel, og vinnur með höndunum, og hendurnar eru fjarri huganum en engu að síður ýta þær undir heilastarfsemina.“

Rætt var við Guðberg Bergsson í Víðsjá.