Billie Eilish semur nýja Bond-lagið

epa07685668 US singer Billie Eilish performs on the Other Stage on day five of the Glastonbury Festival in Pilton, Britain, 30 June 2019. Glastonbury Festival of Contemporary Performing Arts runs from 26 to 30 June.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA

Billie Eilish semur nýja Bond-lagið

14.01.2020 - 18:24

Höfundar

Bandaríska tólistarkonan Billie Eilish semur titillag Bond-myndarinnar No Time to Die sem frumsýnd verður á þessu ári. Eilish, sem er 18 ára, verður um leið yngsti höfundur Bond-lags frá upphafi. „James Bond er svalasta myndaröð sem til er og ég er ennþá í áfalli,“ segir Eilish í yfirlýsingu.

Eilish sló í gegn með sinni fyrstu plötu, When We All Fall Aslepp, Where Do We Go? sem kom út á síðasta ári.

Hún samdi lagið við Bond-myndina með bróður sínum og segir að þau hafi alltaf dreymt um að semja titilag James Bond-myndar  „Okkur finnst við vera ótrúlega heppin að fá að leika svona lítið hlutverk. Lengi lifi 007.“

Framleiðendur myndarinnar segja að lagið nái að fanga andrúmsloft og söguþráð myndarinnar sem verður að teljast heldur óhefðbundin Bond-mynd þótt hasaratriði og sprengingar séu auðvitað á sínum tíma. James Bond  er sestur í helgan stein og kona tekin við starfi hans. 

Breska blaðið Guardian segir aðkomu Eilish enn eina vísbendinguna um hvernig eigi að reyna að nútímavæða James Bond sem hefur þótt hálfgerð risaeðla, ekki síst eftir #metoo-byltinguna. Til að mynda var Phoebe Waller-Bridge ráðin til að lífga upp á handrit myndarinnar að beiðni Daniel Craig sem leikur James Bond. 

Nýverið var svo greint frá því að Hans Zimmer hefði verið ráðinn á síðustu stundu til að semja tónlist myndarinnar. Hann tekur við keflinu af Dan Romer sem sagði starfi sínu lausu vegna „listræns ágreinings.“ Romer er ekki fyrsti maðurinn sem hættir skyndilega. Danny Boyle átti upphaflega að leikstýra myndinni en þegar framleiðendurnir sáu handritið sem Boyle vildi nota hættu þeir við og fengu Cary Joji Fukunaga til að stýra skipinu.