Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bíll fyrir hvern Íslending 17 ára og eldri

18.02.2019 - 20:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Bifreiðum á skrá Samgöngustofu fjölgaði um 12.494 í fyrra og hefur fjöldi bifreiða á skrá aldrei verið meiri. Sé fjöldi bíla borinn saman við mannfjölda á Íslandi eru nú 0,9 bílar fyrir hvern einasta Íslending.

Sé fjöldi þeirra sem geta haft bílpróf borinn saman við fjölda fólksbifreiða á skrá kemur í ljós að það er rétt tæplega ein fólksbifreið fyrir hvern Íslending 17 ára og eldri. Munurinn á fjölda bíla og fjölda Íslendinga hefur aldrei verið minni.

 

Þetta kemur fram í gögnum Samgöngustofu og Hagstofunnar. Samtals voru 311.118 bílar á skrá við lok ársins 2018. Þar af voru 267.386 fólksbifreiðar, 3.196 hópbifreiðar, 28.054 sendibifreiðar og 12.482 vörubifreiðar.

Í nýjasta manntali Hagstofunnar sem er aðgengilegt á vefnum, síðan 1. janúar 2018, teljast Íslendingar vera 348.450. Fjöldi þeirra sem geta haft bílpróf, þeir sem eru 17 ára og eldri, var 272.559 manns.

 

Bílum fjölgar hraðar en fólki

Meðalfjölgun fólksbíla á ári undanfarin 35 ár er hraðari en meðalfólksfjölgun á Íslandi á ári. Á tímabilinu 1983-2018 hefur fólksbílum fjölgað að jafnaði um þrjú prósent á ári samanborið við meðalfólksfjölgun um ríflega eitt prósent á ári. Fólksbílum fjölgaði mikið síðastliðin fimm ár – árin 2014-2018. Þá fjölgaði bílum um 4,6 prósent. Mesta fjölgun fólksbílaflotans sé litið til fimm ára tímabila var árin 1984-1988.

Sé litið til fjölgunar bíla síðustu fimm ár sést að hópbílum hefur fjölgað lang mest. Á árunum 2014-2018 fjölgaði hópbílum að jafnaði um 8,7 prósent á ári. Sendibílum fjölgaði um 6,9 prósent á ári og vörubílum fjölgaði um 4,4 prósent á ári miðað við sama tímabil.

Nýskráningum fækkaði í fyrra

Rúmlega 5.000 færri bílar voru nýskráðir á Íslandi í fyrra en árið 2017. 24.602 bílar voru nýskráðir árið 2018 miðað við 29.844 árið 2017. Nýskráningum hafði fjölgað á hverju ári frá og með 2009, fyrir utan árið 2012.