Biles heimsmeistari í fjölþraut í fimmta sinn

epa07905725 Simone Biles of USA competes in the Floor women's team Final at the FIG Artistic Gymnastics World Championships in Stuttgart, Germany, 08 October 2019.  EPA-EFE/RONALD WITTEK
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Biles heimsmeistari í fjölþraut í fimmta sinn

10.10.2019 - 16:22
Bandaríska fimleikastjarnan Simone Biles varð í dag heimsmeistari kvenna í fjölþraut í áhaldafimleikum. Biles vann titilinn ef úrslit fjölþrautarkeppninnar á HM í Stuttgart í Þýskalandi. Þetta eru sextándu gullverðlaunin sem Biles hefur unnið á HM.

Yfirburði Biles voru miklir í dag eins og við mátti búast. Hún fékk samtals 58,999 stig fyrir æfingar sínar á áhöldunum fjórum. Hún endaði með rúmlega tveimur stigum meira en næsti keppandi.

Biles byrjaði á stökkinu og þar halaði hún inn 15,233 stigum, sem var hæsta einkunnin sem nokkur fékk fyrir stökk í úrslitum fjölþrautarinnar í dag. Stökk Biles má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Mynd: FIG / FIG

Því næst lék hún listir sínar á tvíslá sem er hennar lakasta áhald. Þar fékk hún þó 14,733 stig eða þriðju hæstu einkunnina sem fékkst á tvíslá í dag. Æfingar Biles á tvíslá má sjá hér fyrir neðan.

Mynd: FIG / FIG

Mesta spennan fyrir æfingum Biles á jafnvægisslánni var að sjá hvort hún tæki aftur sama afstökk og hún gerði í undankeppninni á laugardag. Í því tók hún tvöfalt heljarstökk með tvöfaldri skrúfu. Hún lét sér hins vegar nægja tvöfalt heljarstökk með einni skrúfu í afstökkinu í dag.

Biles fékk hæstu einkunn allra fyrir jafnvægisslána í dag eða 14,633 stig. Æfingar hennar á áhaldinu má sjá hér fyrir neðan.

Mynd: FIG / FIG

Biles endaði svo á gólfæfingum, en það er jafnframt hennar sterkasta áhald. Þar sýndi hún allar sínar bestu hliðar og fékk 14,400 stig. Það þarf varla að taka það fram að enginn fékk hærri einkunn en hún fyrir gólfæfingar í dag. Biles endaði með 58,999 stig og varð um leið heimsmeistari. Kínverjinn Tang Xijing sem vann silfur fékk rúmlega tveimur stigum minna en Biles eða 56,899 stig.

Mynd: FIG / FIG

Þetta var í fimmta sinn sem Simone Biles verður heimsmeistari í fjölþraut kvenna. Samtals eru heimsmeistaratitlarnir hennar orðnir 16. Hún hefur unnið fjóra heimsmeistaratitla með Bandaríkjunum í liðakeppni og svo sjö gullverðlaun á einstökum áhöldum. Biles hefur unnið gullverðlaun á öllum heimsmeistaramótum frá 2013 nema árið 2017, en það ár ákvað hún að keppa ekkert. Verðlaunin gætu orðið enn fleiri hjá henni á þessu heimsmeistaramóti.

Biles mun nefnilega keppa til úrslita á einstökum áhöldum á HM á laugardag. Vitanlega verður sú keppni sýnd í beinni útsendingu á RÚV eins og allir aðrir úrslitahlutar HM í Stuttgart.