Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bílamiðstöð ríkislögreglustjóra lögð niður

04.09.2019 - 20:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dómsmálaráðuneytið hefur ákveðið að leggja niður bílamiðstöð ríkislögreglustjóra í núverandi mynd frá og með næstu áramótum. Skilanefnd verður falið að annast fjárhagslegt uppgjör hennar og eigna og hefur ráðuneytið skipað starfshóp sem ætlar að skoða framtíðarmöguleika þessara mála. Ákvörðunin er tekin til að mæta óánægju lögreglustjóra. Dómsmálaráðuneytið hefur óskað eftir því að ríkisendurskoðun geri stjórnsýsluúttekt á embætti ríkislögreglustjóra í heild sinni.

Óánægju hefur gætt innan lögreglu vegna reksturs bílamiðstöðvarinnar sem átti til skamms tíma að reka öll ökutæki lögreglunnar í landinu. Lögreglustjórar telja að embætti þeirra hafi verið ofrukkuð um árabil og nemi sú upphæð hundruðum milljóna. 

Í bréfi sem dómsmálaráðuneytið sendi lögreglustjórum í júlí kemur fram að ákveðið hafi verið að leggja bílamiðstöðina niðurí núverandi mynd og staðfesti Úlfar Lúðvíksson, formaður Lögreglustjórafélags Íslands, þessa ákvörðun ráðuneytisins í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu.

Bréf hafa gengið milli ráðneytis, ríkisendurskoðunar og embættis ríkislögreglustjóra og segir ráðuneytið að fjárhagsuppgjör embættisins vegna síðasta árs gefi ástæðu til heildarúttektar á embættinu og sérstakrar skoðunar á því hvernig rekstur bílamiðstöðvarinnar og embættisins að öðru leyti samræmist lögum um opinber fjármál.
 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV