Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Bieber-áhrifin: Stóraukinn fjöldi ferðamanna

11.01.2018 - 11:47
Mynd með færslu
Ferðamenn á ferð við Fjaðrárgljúfur. Mynd: Umhverfisstofnun
Ferðamennirnir sem lögðu leið sína í Fjaðrárgljúfur í fyrra voru hátt í tvöfalt fleiri en þeir voru árið áður. Ferðamönnum fjölgaði úr 155 þúsund í 282 þúsund, eða um 82 prósent. Landvörður á vegum Umhverfisstofnunar tók til starfa í Fjaðrárgljúfri á síðasta ári í fyrsta skipti vegna mikillar fjölgunar ferðamanna síðustu ár. Þeirri fjölgun hefur fylgt aukið álag á svæðið sem hefur látið mikið á sjá.

Þetta kemur fram í frétt á vef Umhverfisstofnunar. Þar segir að sveitarstjórn Skaftárhrepps hafi óskað eftir aukinni landvörslu. Einn starfaði í Fjaðrárgljúfri og á fimm öðrum náttúruverndarsvæðum í Skaftárhreppi og Hornafirði frá því í lok maí í fyrra, fram til áramóta. Sá leiðbeindi fólki um svæðið, veitti því upplýsingar og varaði við hættu. Enginn landvörður hefur verið á þessum slóðum frá áramótum.

Ferðamönnum sem leggja leið sína í Fjaðrárgljúfur fjölgar allt árið. Í desember komu þangað um 5.500 gestir, 39 prósentum fleiri en þeir 3.900 gestir sem komu þangað í desember 2016. Útlit er fyrir frekari fjölgun fólks sem leggur leið sína í Fjaðrárgljúfur þar sem Vegagerðin hefur aukið þjónustu sína á veginum að svæðinu. Þar með verður það aðgengilegra og viðbúið að fleiri fari þangað að vetri til.

Mynd með færslu
Fjaðrárgljúfur. Mynd: Umhverfisstofnun

Stóraukinn áhuga ferðamanna á Fjaðrárgljúfri má eflaust rekja að hluta til myndbands kanadíska söngvarans Justins Bieber við lagið I'll show you frá því síðla árs 2015. Myndbandið var sett á YouTube-síðu söngvarans í nóvember 2015 og síðan þá hefur fólk horft á það um 400 milljón sinnum.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV