Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Biður sakborninga og aðstandendur afsökunar

28.09.2018 - 12:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur fyrir hönd ríkisstjórnarinnar beðið fyrrverandi sakborninga í Guðmundar-og Geirfinnsmálinu, aðstandendur þeirra og aðra sem hafa átt um sárt að binda vegna málsins afsökunar á því ranglæti sem þeir hafi mátt þola. Dómur Hæstaréttar var ræddur á fundi ríkisstjórnarinnar í dag.

Í tilkynningu sem birtist á vef Stjórnarráðsins kemur jafnframt fram að ákveðið hafi verið að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að leiða viðræður og sáttaumleitanir vegna þess miska og tjóns sem hluteigandi hafi orðið fyrir. Í starfshópinum sitja fulltrúar forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og dómsmálaráðuneytis. 

Hæstiréttur sýknaði í gær fimm sakborninga af öllum ákæruliðum í upptökumáli Guðmundar- og Geirfinnsmálsins, 38 árum eftir að mennirnir voru sakfelldir af sama dómstóli. Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar, sagðist ánægður með niðurstöðuna en óánægður með forsendurnar. 

Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra, fagnaði dómi Hæstaréttar í fréttum RÚV í gærkvöld.  „Ég tel þetta ákaflega farsæl málalok í þessu afskaplega erfiða máli.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV