Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Biðstjórn eða breytt stjórnmál

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Þriggja flokka stjórnin sem nú er til umræðu yrði biðstjórn þar sem pottlok yrði sett á breytingar segja formaður Viðreisnar og varaformaður Samfylkingarinnar. Borgarfulltrúi Vinstri-grænna hefur trú á að gott komi út úr stjórnarmynduninni og stjórnmálin breytist, og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur að til verði stjórn sem sitji heilt kjörtímabil.

Stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokksins, Vinstri-grænna og Framsóknarflokksins voru til umræðu í Silfrinu í morgun. Þar virtust fulltrúar fjögurra flokka ganga út frá því að flokkarnir þrír nái saman um stjórnarmyndun.

Unnur Brá Konráðsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi forseti Alþingis, sagði að nú sé hægt að leggja áherslu á heilbrigðis- og menntamál auk uppbyggingar innviða sem allir flokkar hafi verð sammála um. „Ég trúi því að mönnum sé full alvara sem eru í þessum viðræðum og að menn muni klára þetta og sitja í heilt kjörtímabil. Af því að það eru það sem Ísland þarf á að halda. Þá mega stjórnmálin ekki verða til þess að tækifærin sem í þessu ástandi felast glutrist niður.“

„Þegar maður datt inn í lokin á kosningabaráttunni sem formaður þá skynjaði að ég það var komið lengra sumt en kannski almenningur vissi, og síðan eru menn og konur búnir að vinna vel held ég síðustu þrjár vikur,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Hún sagðist gefa nýrri stjórn öll tækifæri en taldi að pottlok yrði sett á breytingar þar sem allir flokkarnir þrír væru íhaldsflokkar.

Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, segist hlakka til að sjá Katrínu Jakobsdóttur sem forsætisráðherra en efast um að þessi ríkisstjórn minnki misskiptingu og auki jöfnuð. „Ég held að þetta verði biðstjórn. Við erum að fara inn í fjögur ár með bið. Við erum ekki að fara að breyta neinu. Það er ekkert að fara að gerast. Ísland hefur bara ekki efni á að bíða í fjögur ár með að fara að breyta kerfunum okkar.“

„Ég vil trúa því að það komi eitthvað gott úr þessu og að við breytum stjórnmálunum. Ég held að kerfisbreytingar, af því að Katrín Jakobsdóttir hefur verið að tala um það að við þurfum ný vinnubrögð. Reyndu að tala við hana og ná þínu í gegn stundum þegar hún er með eitthvað agenda,“ sagði Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri-grænna í Reykjavík. Nú lægi fyrir að borgin þyrfti að leggja sama óskalista fyrir ríkisstjórn og lögð var fyrir síðustu stjórn í fyrra.