Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Biðst velvirðingar á villum í PISA

12.12.2016 - 17:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Menntamálastofnun hefur beðist afsökunar á stafsetningarvillum og því sem betur mátti fara í þýðingum í PISA könnuninni 2015. Stofnunin hefur verið gagnrýnd fyrir vinnubrögð í þeim efnum að undanförnu.

Íslenskufræðingur les yfir framvegis

Eiríkur Rögnvaldsson prófessor í íslensku segir t.a.m að mikið sé af klúðurslegu orðalagi, ósamræmi, hnökrum í máli, prentvillum og öðrum göllum í prófinu. Í fréttatilkynningu Menntamálastofnunar er beðist velvirðingar á þessum mistökum og að allt muni vera gert til að slíkt endurtaki sig ekki. Í framtíðinni ætli stofnunin að fá íslenskufræðing til að lesa yfir lokaútgáfur áður en þær verða notaðar í prófi.

 

Fréttatilkynning Menntamálastofnunar í heild:

PISA kannanir og þýðingar þeim  tengdar hafa verið til umræðu undanfarið. Góðar ábendingar hafa komið fram um ýmislegt sem hefði mátt betur fara í þýðingum og m.a. bent á stafsetningarvillur í PISA könnuninni 2015. Menntamálastofnun biðst velvirðingar á þessum mistökum og mun stofnunin gera allt sem í hennar valdi stendur svo slíkt endurtaki sig ekki.

Um þýðinguna á PISA könnuninni 2015 sáu fjórir þýðendur sem jafnframt hafa reynslu af kennslu á grunn- og framhaldsskólastigi. Þrír þeirra voru ráðnir af Námsmatsstofnun en sá fjórði var óháður aðili sem OECD valdi. Allir fjórir aðilarnir eru íslenskir. Í ljósi ábendinga sem komu varðandi PISA 2015 mun Menntamálastofnu fá íslenskufræðing til að lesa yfir lokaútgáfur áður en þær verða notaðar í prófi. Nánari lýsing á þýðingarferli PISA má finna í frétt Menntamálstofnunar sem birtist fyrir helgi.

Í dæmahefti PISA sem Námsmatsstofnun gaf út 2008 eru gefin dæmi um PISA spurningar. Þar má finna brot úr sögunni Gjöfin sem var notuð í PISA 2000. Textabrotið sem birtist þar og hefur gengið um samfélagsmiðla er ekki sá texti sem notaður var í sjálfu prófinu. Þegar heftið var tekið saman vildi svo til að rangur texti var valinn en ekki hin endanlega útgáfa. Hér fyrir neðan má sjá textann eins og hann birtist nemendum í PISA könnuninni fyrir 16 árum:

Hún velti fyrir sér hve marga daga hún hefði setið svona og horft á kalt, mórautt vatnið fikra sig hærra við brattan bakkann sem svarfaðist úr jafnharðan. Hún mundi óljóst eftir því þegar regnið skall á - úr suðri inn yfir fenin - og tók að lemja á húsinu. Svo fór fljótið að vaxa, hægt í fyrstu, en síðan jafnt og þétt uns straumurinn hægði á sér, stöðvaðist og snéri til baka. Þegar stundir liðu seildist það inn eftir lækjum og skurðum og lagðist yfir flatlendið. Um nóttina, meðan hún svaf, hremmdi það veginn og umkringdi hana svo að nú sat hún hér ein, báturinn hennar horfinn; húsið eins og rekadrumbur sem borið hafði upp á malarkamb. Nú hafði vatnið jafnvel náð að teygja sig upp í tjargaða stoðviðina. Það hækkaði sífellt.
 

 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV