Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Biðja um regn í Indónesíu

11.09.2019 - 09:04
epaselect epa07834069 Indonesian Muslims wear protective masks as they perform a mass prayer for rain to combat the haze and drought season in Pekanbaru, Riau province, Indonesia, 11 September 2019. According to media reports, Indonesian authorities are preparing for more fires in Sumatra and Borneo that may impact neighbouring countries, Singapore and Malaysia.  EPA-EFE/AFRIANTO SILALAHI
Um alla Indónesíu voru bænastundir í morgun þar á meðal í Pekanbaru í Riau-héraði þar sem þessi mynd var tekin.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Bænastundir voru víða í Indónesíu í morgun þar sem fólk kom saman til að biðja æðri máttarvöld um regn til að slökkva mikla skógarelda sem geisa í landinu. 

Í meira en mánuð hafa miklir eldar logað á eyjunum Súmötru og Borneó, en það er ekki óalgengt þegar verið að að ryðja skóg til ræktunar. Berst þá gjarnan mikill reykur til grannríkja sem kvarta yfir því.

Stjórnvöld í Indónesíu segja hins vegar að aðstæður séu óvenjulegar á þessu ári. Miklir þurrkar hafi verið um alla Suðaustur-Asíu undanfarna mánuði af völdum veður fyrirbærisins El Nino.

Eldar hafa kviknað á um 5.000 stöðum í Indónesíu og sjást þeir greinilega á gervihnattarmyndum. Þúsundir hermanna hafa verið kallaðir út til að berjast við eldana og tilraunir hafa verið gerðar til að leysa upp ský til að skapa þannig rigningu.

Þá hefur lögregla gripið til aðgerða gegn bændum sem kveikja elda í óleyfi. Höfðað hefur verið mál á hendur einstaklingum og fyrirtækjum sem grunuð eru um að kveikja elda til að ryðja skóg.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV