Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Biðja um leyfi til að farga kútter Sigurfara

30.03.2019 - 21:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bæjarráð Akranesbæjar hefur skrifað Minjastofnun bréf þar sem bæjaryfirvöld óska eftir heimild til að farga hinu sögufræga skipi kútter Sigurfara. Bærinn telur sig hafa sinnt rannsóknum á gripnum með fullnægjandi hætti. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, ætlaði að beita sér fyrir því að kútter Sigurfari yrði varðveittur.

Bréfið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs í vikunni. Þar kemur fram að bærinn hafi haldið alþjóðlegt málþing og ítarleg rannsókn hafi verið framkvæmd. „Skrásetning var á heimildum um kútterinn, söfnun heimilda í munnlegri geymd, söfnun ljósmynda, skrásetning á byggingarlagi kúttersins og skrásetning á heildarmynd skipsins, “ segir í bókun bæjarráðs.

Fram kemur í bréfinu að skipið verði fyrst boðið áhugasömum til sölu en ef enginn vilji kaupa það vilji bærinn fá leyfi til að farga því.

Kútter Sigurfari var byggður á Englandi árið 1885 en hefur legið undir skemmdum og var talið að grípa þyrfti til aðgerða ef bjarga ætti því frá glötun. Stjórn Byggðasafnsins í Görðum íhugaði meðal annars að ráða styrkjasérfræðing til starfa í von um að bjarga skipinu sem er eitt af einkennum bæjarins. 

En það varð líka snemma ljóst að það myndi kosta talsverða fjármuni. Í janúar fyrir fjórum árum sagði formaður bæjarráðs Akraness í samtali við fréttastofu að líklega yrði skipið rifið þar sem bærinn hefði ekki efni á endurbótunum en kostnaðurinn var talin nema á tugum ef ekki hundruð milljóna. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra,  sagðist hins vegar ætla að beita sér fyrir því að skipið yrði varðveitt. „Ég tel mikilvægt að varðveita kútter Sigurfara og já ég hyggst beita mér fyrir því eins og kostur er,“ sagði Sigmundur á Alþingi í apríl fyrir fjórum árum. 

Fallist Minjastofnun á beiðni bæjaryfirvalda heyra tvö af þekktustu kennileitum bæjarins sögunni til en fyrr í þessum mánuði var sementsturninn sögufrægi jafnaður við jörðu.