Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Biðja um breytt viðhorf til fóstureyðinga

27.09.2014 - 14:16
Mynd með færslu
 Mynd:
Á bænaskrá fyrir Kristsdaginn, sem haldinn er í Eldborgarsal Hörpu í dag, er meðal annars bæn fyrir breyttum viðhorfum til fóstureyðinga, fyrir því að kennarar megi àtta sig á sannleikanum og að gídeonfélagar fái að dreifa nýja testamenntinu í grunnskólum landsins.

Á Kristsdegi koma saman forsvarsmenn hinna ýmsu kristilegu trúfélaga á landinu og sameinast í bæn fyrir landi og þjóð, eins og segir í kynningu hátíðarinnar. Að skipulagningu Kristsdags standa sömu aðilar og stóðu fyrir Hátíð vonar sem haldin var í fyrra. Sú hátíð þótti umdeild, sér í lagi vegna yfirlýstrar afstöðu aðalfyrirlesarans Franklin Grahams gegn samkynja hjónaböndum.

Á Kristsdegi í dag stigu prestar þjóðkirkjunnar sem og forstöðumenn kristilegra söfnuða á svið og báðu fyrir stjórnvöldum, íbúum landsins og kristilegu starfi. Á lista yfir Bænarefni Kristsdags, sem finna má á vefsíðu hátíðarinnar, segir meðal annars: „Biðjum um breytt viðhorf til fóstureyðinga, hugarfarsbreytingu og endurnýjaða ábyrgðartilfinningu.“ Ennfremur er beðið sérstaklega fyrir þeim stjórnmálamönnum og embættismönnum sem þurfa að koma fram í fjölmiðlum, og að Guð stöðvi neikvætt umtal um þá. Þá er beðið fyrir kvótakerfinu og útgerðarfyrirtækjum.

Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, segir aðspurður að ekki verði farið í einu og öllu eftir bænaskránni í dag. Þeir sem taki þátt í hátíðinni orði sínar fyrirbænir á sinn hátt, og taki þátt á sínum forsendum. Bænaskráin á vefnum er sú sem farið er eftir hjá Friðrikskapellu, sem stendur að baki Kristsdegi. 

[email protected]