Bíða með að kæra stuld fram yfir kosningar

23.10.2016 - 13:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Helgi Helgason, formaður Íslensku þjóðfylkingarinnar, segir að flokkurinn muni ekki kæra meintan þjófnað á meðmælalistum flokksins til lögreglu fyrr en eftir kosningar.

Helgi segir í skriflegu samtali við fréttastofu að nauðsynlegt sé að horfast í augu við að vika sé til kosninga og að kæra muni ekki breyta neinu í að fá því að breytt að flokkurinn geti boðið fram í Reykjavíkurkjördæmum. „Eftir að hafa ráðfært okkur við fólk sem þekkir betur inn á svona mál höfum við ákveðið að láta þetta bíða þar til fram yfir kosningar,“ segir Helgi.

Flokkurinn skilaði ekki meðmælalistum í Reykjavíkurkjördæmunum og Suðvesturkjördæmi. Því mun flokkurinn ekki bjóða fram í þeim kjördæmum. Helgi hefur áður fullyrt að meðmælalistum hafi verið stolið.

Líkt og hefur komið fram drógu oddvitar Íslensku þjóðfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmum, Gunnlaugur Ingvarsson og Gústaf Níelsson, framboð sín til baka.