Bið eftir hjúkrunarrýmum á Akureyri styttist

14.01.2020 - 15:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjörutíu og þrjú eru á biðlista eftir hjúkrunarrými á Akureyri. Framkvæmdastjóri segir ástæðu fyrir styttri biðlista sennilega vera aukna þjónusta í dagþjálfun. Íbúðir fyrir allt að 60 manns munu rísa á Akureyri og vonast er til að framkvæmdir hefjist síðla árs.

Helga Guðrún Erlingsdóttir, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar, segir biðlista hafa verið að styttast. „Það gerðist eitthvað árið 2017, þá fór biðlistinn upp í rúmlega sextíu,“ segir Helga. Síðan þá hafi hann farið hægt niður á við og um áramót hafi 43 verið á biðlista. Sjö eru á biðlista eftir dvalarrýmum. Í þeim rýmum býr fólk sem þarf ekki á jafnmikilli þjónustu að halda og er meira sjálfbjarga. Helga Guðrún segir biðlistana sennilega vera styttri vegna aukinnar þjónustu í dagþjálfun.

Dagþjálfun er fyrir fólk sem getur búið í heimahúsum en þarf á þjónustu að halda. Áður var dagþjálfun aðeins í boði virka daga frá 8-16. Nú sé hún í boði alla daga ársins og til 21. Sú breyting átti sér stað snemma síðasta árs og er tilraunaverkefni til tveggja ára og markmiðið að efla stuðning við eldra fólk sem býr heima og þarf stuðning til að geta búið áfram heima. 

Biðtími um hálft ár

Hundrað sjötíu og tvö hjúkrunarrými og 10 dvalarrými eru skráð hjá Öldrunarheimilum Akureyrar. Helga Guðrún segir erfitt að segja til um meðalbiðtíma en sennilega sé hann um hálft ár. Það spili margt inn í og ýmsar sérþarfir sem þurfi að taka tillit til. Húsnæðið sé mismunandi og misjafnt hverjum herbergin henta. Nokkuð sé af litlum herbergjum sem henti illa fyrir fólk í hjólastólum, þá sé fólk sem ekki er af sama kyni ekki sett með sameiginlegt salerni. Nokkuð sé um flutninga innanhúss enda óski margir eftir því að fá sérbaðherbergi.

Nýjar íbúðir væntanlegar

Í pípunum er ný viðbygging á dvalarheimilinu Lögmannshlíð með íbúðir fyrir allt að 60 manns. Helga Guðrún segir að með tilkomu þess fjölgi rýmum þó ekki heldur sé verið að uppfæra rýmin sem séu í boði svo þær standist þær kröfur sem gerðar eru til hjúkrunarrýma. Sextíu og sjö rými hjá Öldrunarheimilum Akureyrar uppfylla ekki viðmiðunarkröfur í dag. Vonast er til að framkvæmdir hefjist síðar á árinu og hægt verði að flytja inn árið 2022.