BHM vill að laun endurspegli menntun

15.01.2019 - 12:24
Mynd með færslu
Þórunn Sveinbjarnardóttir er formaður BHM. Mynd: Rúv Skjáskot
Aðalkrafa BHM í komandi kjaraviðræðum verður að menntun verði  metin til launa. Þá er þess einnig krafist að vinnuvikan verði stytt. Formaður félagsins segir að samningar á almenna markaðnum hafi áhrif á það hversu hárra launa verður krafist. 

Meta verður menntun til launa, segir formaður Bandalags háskólamanna. Það verður aðaláherslan í komandi kjaraviðræðum. Einnig er farið fram á styttingu vinnuvikunnar.  Samninganefndir aðildafélaga BHM  komu saman í  morgun og ræddu  áherslur í komandi kjaraviðræðum við ríki og sveitarfélög. 

Starfsgreinasambandið, VR og fleiri félög á almenna markaðnum hafa gert kröfu um að lágmarkslaun verði hækkuð í fjögur hundruð tuttugu og fimm þúsund krónur á mánuði. VR, Verkalýðsfélag Akraness og Efling funda með Samtökum atvinnulífsins í fyrramálið. Formaður VR sagði í fréttum RÚV í gær að komist ekki skriður á viðræðurnar á fundinum ætli félögin þrjú að ígrunda næstu skref.

Aðildarfélög Bandalags háskólamanna ræddu sameiginlegar áherslur í komandi kjaraviðræðum í morgun. Samningar við ríki og sveitarfélög renna út í mars. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, segir að líkt og í síðustu viðræðum verði þess krafist að menntun verði metin til launa.

„Það er í raun aðalkrafa BHM að það sé ávinningur af því að afla sér háskólamenntunar hér á landi og hann sé viðunandi og komi m.a. fram í launakjörum,“ segir Þórunn.

Einhver viðmiðunartala komin fram?

„Nei, við höfum ekki verið neitt að ræða um upphæðir eða prósentur. Við erum að vinna efnislega í kröfugerð sem varðar mjög marga þætti kjarasamninganna. Ég held að ég sé ekki að ljóstra upp neinum leyndarmálum þó að ég segir þér að hér er auðvitað verið að ræða vinnufyrirkomulag, styttingu vinnuvikunnar og önnur réttindatengd atriði,“ segir Þórunn.

Önnur stéttarfélög hafa lagt fram verulegar launakröfur, geturðu eitthvað sagt til um hvort BHM fari fram á verulegar launahækkanir?

„Á þessari stundu nei, þá get ég ekki sagt það. En að sjálfsögðu er það þannig að niðurstaðan sem verður á almenna markaðnum hún hefur að sjálfsögðu áhrif á aðra á vinnumarkaði,“ segir Þórunn.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi