Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Beyoncé í leikinni endurgerð The Lion King

Mynd með færslu
 Mynd: Grammy - RÚV

Beyoncé í leikinni endurgerð The Lion King

02.11.2017 - 10:54

Höfundar

Söngkonan Beyoncé, leikarinn James Earl Jones og spjallþáttastjórnandinn John Oliver leika í endurgerð Disney af stórmyndinni The Lion King. Myndin er væntanleg sumarið 2019.

Jon Favreu leikstýrir myndinni en hann leikstýrði einnig leikinni endurgerð að The Jungle Book frá því í fyrra og má gera ráð fyrir því að The Lion King verði með svipuðu móti.

Lauslega byggð á Hamlet

Teiknimyndin The Lion King er frá árinu 1994 og fjallar um konungborna ljónið Simba. Simbi býr ásamt foreldrum sínum Sarabíu og Múfasa í Ljósuklettum. Örlögin taka í taumana þegar föðurbróðir hans, óþokkinn Skari, fremur valdarán og hrekur Simba í útlegð. Þarf þá Simbi að læra að bjarga sér upp á eigin spýtur. Sagan er lauslega byggð á Hamlet eftir William Shakespeare.

Seth Rogen verður Púmba

James Earl Jones fer með hlutverk Múfasa, föður Simba. Með hlutverk sjálfrar aðalpersónunnar fer leikarinn Donald Glover, sem nýverið lék í Solo: A Star Wars Story. Hlutverk hins illa þokkaða Skara er síðan í höndum stórleikarans Chiwetel Ejiofor, sem margir þekkja úr kvikmyndinni Twelve Years a Slave. Gamanleikarinn Seth Rogen fer með hlutverk vinalega vörtusvínsins Púmba, en spjallþáttastjórnandinn John Oliver ljáir ráðgjafa Múfasa, fuglinum Zasú, rödd sína. Hér gefur að líta tilkynningu frá Disney á Twitter.

„Það er draumur hvers leikstjóra að setja þvílíkt hæfileikateymi í því skyni að ljá svona klassískri sögu líf,“ sagði leikstjórinn Favrau í samtali við Reuters fréttastofuna.

Væntanlegur frumsýningardagur The Lion King í Bandaríkjunum er 19. júlí 2019.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Konungur ljónanna í Hagaskóla