Beygði af í umræðu um bætur til sakborninga

Mynd: Skjáskot / RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra beygði af í umræðu um frumvarp hennar um bætur í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu á Alþingi í gærkvöld. Nokkurrar gagnrýni gætti á frumvarpið. Undir lok umræðunnar frábað forsætisráðherra sér ummæli um að frumvarpið væri sýndarmennska eða gæfi þingmönnum færi á að fara í yfirboð um hversu háar fjárhæðir skyldu greiddar fyrrverandi sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu og aðstandendum látinna fyrrverandi sakborninga. Þingmaður baðst þá afsökunar.

Umræða um frumvarpið hófst um klukkan sex í gærkvöld. Forsætisráðherra gerði grein fyrir frumvarpinu, og sagði tilgang þess að tryggja bótarétt sakborninga og aðstandenda, sérstaklega að tryggja að fyrrverandi sakborningar og aðstandendur þeirra sakborninga sem eru látnir hefðu sömu stöðu.

Nokkrir þingmenn lýstu undrun sinni á frumvarpinu. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, taldi óljóst að þörf væri á frumvarpinu. „Ef ég ætti að nota eitthvað orð yfir þetta sem væri nákvæmt, það er kannski ekki alveg sanngjarnt og ekki endilega meint þannig myndi ég nota orðið sýndarmennska yfir frumvarpið. Ég endurtek: Það er ekki endilega nákvæmt orð á þann hátt með hver tilgangur þess er eða hver meiningin er eða markmiðið en það er samt nákvæmt orð á tæknilegan hátt. Ég meina það ekki illa á þann hátt eins og kannski sýndarmennska er skilin, það orð er skilið.“

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fór yfir aðkomu þingsins að Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Hann sagði að málið ætti að vera hjá dómstólum og að málsmeðferðin væri aðför að dómsvaldinu í landinu. Það væri fullkomið hneyksli ef stjórnmálamenn ætluðu að taka fram fyrir hendurnar á dómstólum.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, lýsti undrun sinni á málatilbúnaðinum. „Ef hæstvirtur forsætisráðherra er að ætlast til þess að þingmenn fari hér að gambla með peninga, metast um hver býður hæstu bæturnar, þá er ég að hugsa um að fá að sitja hjá í þeirri umferð. Mig langar ekki til að taka þátt í slíkri pólitískri veislu í boði hæstvirts forsætisráðherra. Það er bara ósmekklegt í þessu dæmi, við förum ekki á það plan. Þetta er þess háttar mál að það á ekki að vera bundið flokkspólitík, þetta er miklu stærra mál en það. Ef við förum hérna einhvern veginn að bjóða í — ég tek ekki þátt í því.“

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV

Framsögumaður lýkur fyrstu umræðu um frumvörp og það gerði Katrín í gærkvöld. Hún sagðist hafa talið eðlilegt að ríkið reyndi að ná samkomulagi við einstaklinga í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu um bætur frekar en að vísa þeim á dómstóla. Viðræður sáttanefndar við fyrrverandi sakborninga og aðstandendur látinna sakborninga hefðu ekki skilað árangri. Hún sagði að sáttanefnd hefði talið áhöld á því að aðstandendur látinna sakborninga ættu sama rétt og fyrrverandi sakborningar sem eru enn á lífi. „Ég taldi það vera ákveðið sanngirnis- og réttlætismál að aðstandendur fyrrum sakborninga ættu sama rétt og þeir fyrrum sakborningar sem eru enn á lífi.“

„Ég hef ekki nokkurn áhuga á því að fara með þetta mál í einhverjar flokkspólitískar skotgrafir. Það er það síðasta sem ég myndi vilja,“ sagði Katrín. „Ég vil því ekki fallast á það að þetta frumvarp sé sýndarmennska, þó það orð hafi kannski verið túlkað með ýmsum hætti í ræðu háttvirts þingmanns Björns Levís Gunnarssonar.“

„Hér er ekki verið að biðja þingmenn háttvirta um að taka þátt í efnislegri umræðu um inntak máls eða fara hér í einhver yfirboð á fjárhæðum. Það er ekki ætlunin með þessu frumvarpi. Mér þykir leitt ef háttvirtir þingmenn gera mér það upp, hér,“ sagði Katrín.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV

Tveir þingmenn höfðu beðið um að veita andsvar en eftir ræðu Katrínar steig aðeins Björn Leví í ræðustól. Hann baðst afsökunar meðan forsætisráðherra þerraði tárin.

„Ég biðst afsökunar á því að hafa notað orðið sýndarmennska í þessu. Ég reyndi að koma því á framfæri í ræðu minni að ég meinti það ekki á þann hátt,“ sagði Björn Leví. „Ég var að reyna að setja upp þá sviðsmynd varðandi lög um opinber fjármál og heimildir ráðherra til að greiða bætur sem koma frá dómstólum, að þær væru þegar fyrir hendi. Og ef það væri satt þá væri þetta að vissu leyti endurgerð á einhverju sem er þegar til staðar. Á þann hátt notaði ég orðið sýndarmennska en það er ekki alveg nákvæmt, en í einhvern veginn þannig aðstæðum fannst mér það vera viðeigandi. Ég geri mér fyllilega grein fyrir og reyndi að koma því á framfæri að ég taldi það ekki vera markmiðið eða meiningu hæstvirts forsætisráðherra svo ég vil bara leiðrétta það og biðjast velvirðingar ef það hefur skilist einhvern veginn á þann hátt. Ég býst ekki við neinu svari bara afsakið við það.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi