
Betri dreifing raforku í stað virkjana
Leiðtogar flokkanna þriggja hafa haldið spilunum þétt að sér um áherslur tilvonandi ríkisstjórnar, en eitt og annað hefur þó kvisast út.
Virkjanamál hafa verið eitt helsta bitbein Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks, en samkvæmt heimildum fréttastofunnar sættast flokkarnir á að dreifikerfi raforku verði eflt og raforkan nýtt betur í stað þess að fara í nýjar virkjanir. Það verður sett í farveg milli flokkanna hvernig dreifa eigi raforkunni um landið með tryggum hætti.
Einnig herma heimildir að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu verði ekki hækkaður eins og til stóð, en skoðað verði að leggja á komu- og brottfarargjöld. Þá herma heimildir fréttastofu að stefnt sé að því að hækka fjármagnstekjuskatt úr 20 í 22%.
Morgunblaðið segist hafa heimildir fyrir því að stefnt sé að því að lækka tryggingagjald og lækka tekjuskattsþrep einstaklinga, en það verði þá gert í tengslum við komandi kjarasamninga. Blaðið segist einnig hafa heimildir fyrir því að lækka eigi eigið fé í Landsbankanum og Íslandsbanka og þeir fjármunir sem þar losni fari í að byggja upp innviði og hagnaður sem fáist af væntanlegri sölu verði nýttur í að greiða niður skuldir ríkissjóðs.
Flokkstofnanir flokkanna þriggja funda um stjórnarsáttmálann í kvöld og greiða um hann atkvæði. Verði hann samþykktur tekur ný ríkisstjórn Sjálfstæðsiflokks, Vinstri Grænna og Framsóknar við á morgun fimmtudag.