Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Betra Ísland opnað á Austurvelli

16.11.2011 - 18:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Lýðræðisvefurinn Betra Ísland var formlega tekinn í notkun í tjaldi á Austurvelli í dag. Markmiðið með vefnum er að tengja saman kjósendur og umbjóðendur þeirra, kalla eftir hugmyndum almennings og auka samráð.

„Þetta er í sjálfu sér ekkert mikið og flókið mál að opna vefinn, það er bara gert svona og hér með lýsi ég Betra Ísland formlega opið,“ sagði Gunnar Grímsson, annar forsvarsmanna verkefnisins, þegar hann opnaði vefinn í tjaldi á Austurvelli í dag.

Vefurinn er systurvefur Betri Reykjavík en beinir sjónum að landsmálum í stað málefna borgarinnar. Á vefnum gefst fólki kostur á að hafa áhrif á þær afdrifaríku ákvarðanir sem teknar eru á Alþingi og leggja fram nýjar hugmyndir. Rök og umsagnir um þau þingmál sem skipta almenning mestu máli verða send inn sem umsagnir um viðkomandi mál til nefnda Alþingis. Þetta hefur reynst vel í borginni og nú þegar eru hátt í tuttugu mál komin í ferli hjá viðkomandi fagráðum.

„Málið er það eru sumir hlutir þarna inni sem geta nýst alþingismönnum alveg ótrúlega vel í þeirra eigin vinnu burt séð frá því hvað kemur frá almenningi,“ segir Gunnar aðspurður um hvort hann hafi trú á að þingmenn noti vefinn. Hann segir að þannig geti vefurinn haft tvöfalda vigt, þannig að virk þátttaka almennings, eins og í Betri Reykjavík, geri það að verkum að hægt og rólega fari þingmenn að nota vefinn.