„Betra en ég hafði nokkurn tíma þorað að vona“

Mynd: RÚV / RÚV

„Betra en ég hafði nokkurn tíma þorað að vona“

30.04.2019 - 19:45
Elín Edda Sigurðardóttir náði á sunnudag besta tíma íslenskrar konu í maraþonhlaupi í 20 ár. Hún segir það pottþétt að hún muni hlaupa maraþon aftur og aftur eftir þetta.

Elín Edda hefur getið sér gott orð í lengri hlaupum á síðustu árum og kom fyrst kvenna í mark í hálfu maraþoni í Reykjavíkurmaraþoninu 2017 og 2018. Hún var meðal keppenda í Hamborgarmaraþoninu í Þýskalandi á sunnudag en það var hennar fyrsta heila maraþon.

„Þetta var ótrúleg upplifun. Það er ótrúlega bæði erfitt, krefjandi, og eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert.“

Elín Edda hefur verið að hlaupa lengi en þetta var hennar fyrsta heila maraþon. Af hverju kom það ekki fyrr en nú?

„Ég er búin að vera að halda aftur af mér svolítið. Og það er eiginlega bara út af þjálfaranum mínum. Hún sagði mér að ég væri ekki alveg tilbúin og ég held að það hafi verið alveg rétt. Gott að undirbúa sig bara með því að taka góð tíu kílómetra hlaup og góð hálfmaraþon áður. Og svo er ég búin að vera að undirbúa mig í allan vetur fyrir þetta hlaup eiginlega. Bara með uppbyggingu frá því í september.“ segir Elín Edda.

Elín Edda hljóp Hamborgarmaraþonið á tveimur klukkustundum og 49 mínútum sem er næstbesti tími íslenskrar konu frá upphafi og sá besti í 20 ár.

„Þessi tími kom mér á óvart, þetta er betri tími en ég hafði nokkurn tímann þorað að vona.“

Og Elín er ekki hætt.

„Eiginlega strax eftir hlaupið þá sagði ég við sjálfa mig: Þetta geri ég aldrei aftur. Þetta er svona sársauki sem er alveg hræðilegur í smá stund. Og svo gleymir maður honum, eins og bara að fæða barn eða eitthvað. Þú veist, maður bara gleymir þessu. Þannig að ég er búin að vera að hugsa svolítið mikið um þetta síðan á sunnudaginn. Nú er kominn þriðjudagur. Og ég er alveg staðráðin í að ég ætla að fara aftur maraþon, og á þessu ári. Og ég á örugglega eftir að gera það aftur og aftur og aftur.“ segir Elín Edda.

Viðtalið við Elínu Eddu má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.