Besta jólagjöfin þegar dóttirin læknaðist

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV

Besta jólagjöfin þegar dóttirin læknaðist

07.05.2019 - 19:30

Höfundar

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur lýst því yfir að þegar kemur að heilbrigðismálum séu engar aðgerðir eins hagkvæmar og árangursríkar og bólusetningar. Dóttir Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð smitaðist af kíghósta áður en hún hafði náð aldri til að fá sína fyrstu bólusetningu og mæðgurnar gengu í gegnum erfitt tímabil.

Í kvöld verður sýnd á RÚV fræðslumynd þar sem íslenskir sérfræðilæknar fjalla um fyrirkomulag bólusetninga hér á landi.  Rætt verður við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um kíghóstann sem kornung dóttir hennar smitaðist af og hvernig það var að horfa upp á barn sitt ganga í gegnum veikindin. „Dóttir mín var ekki nema tæplega sex vikna og virtist vera að fá eitthvað kvef. Við fórum á spítalann, komum heim en fórum svo aftur. Það hafði aldrei hvarflað að mér að hún væri með eitthvað eins og kíghósta.“ Þórdís segir hafa verið erfitt að horfa upp á svo ungt barn ganga í gegnum þessa erfiðleika. „Það var sárt að horfa upp á svo lítinn og óvarinn einstakling sem maður gat ekkert gert fyrir.“

Þórdísi Kolbrúnu var frá upphafi sagt að búa sig undir að þetta tæki langan tíma enda gengi sjúkdómurinn í Kína undir nafninu 100 daga hósti. „Það var ekki auðvelt að sætta sig við að þetta tæki svo langan tíma. Þetta fór þegar verst var upp í 50 köst á sólarhring og næturnar voru oft verri en dagurinn. Það gerðist einu sinni að ég óttaðist um líf hennar. Það varði kannski bara í um klukkustund en þarna gat starfsfólk Landspítalans stillt mann aftur á réttan stað. Á meðan á þessu stóð hugsaði ég hvað væri það versta sem getur gerst og hvort hún gæti mögulega dáið frá mér. Ég var ekki einu sinni búin að fá að kynnast henni almennilega, hún er svo lítil og ég þekki hana ekki ennþá.“

Fyrir mikla mildi batnaði dóttur hennar að lokum og er hraust í dag. „Þegar henni loksins fór að batna, sem var á þorláksmessu þegar hún hafði verið í rúman mánuð inni á spítala, þá var það besta jólagjöf sem við gátum fengið. Í dag er hún sem betur fer ótrúlega hraust. Þegar verkefninu var lokið þá var því blessunarlega lokið.“

Viðtalið við Þórdísi Kolbrúnu má sjá í spilaranum hér að ofan en fræðslumyndin er á dagskrá á RÚV klukkan 20:05.

Tengdar fréttir

Heilbrigðismál

Forsetinn hvetur til bólusetninga

Heilbrigðismál

Metfjöldi mislingatilfella í Bandaríkjunum

Heilbrigðismál

Útbreiðsla mislinga margfaldast

Höfuðborgarsvæðið

Bólusetning ekki skilyrði fyrir leikskólavist