Best að vinna við kvikmyndir á Íslandi

Mynd: RÚV / RÚV

Best að vinna við kvikmyndir á Íslandi

28.09.2018 - 13:14

Höfundar

Mads Mikkelsen, stórleikarinn danski, hefur mikið dálæti á því að vinna á Íslandi. Hann er staddur hér á landi til að taka á móti verðlaunum á RIFF, alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, sem hófst í gær.

„Hvergi í heiminum þekkist að vinna eins og hér,“ segir Mads Mikkelsen í viðtali í Menningunni á RÚV. Að vinna við gerð kvikmynda á Íslandi minnir hann á hvernig farið var að í Danmörku fyrir mörgum árum. „Þá var rokk og ról og aldrei gefist upp. Allir lögðu ótrúlega mikið á sig og allir gátu eitthvað í öllu. Það er afar heillandi, ég elska að vinna hér. Og það mætti halda að ég segði þetta alls staðar en það geri ég ekki. Þetta er besta landið til að vinna að kvikmyndum í.“

Nýjasta mynd hans, Arctic, er öll tekin upp á Íslandi. Mads leikur þar aðalhlutverkið ásamt íslensku leikkonunni Maríu Thelmu Smáradóttur.

Mynd með færslu
 Mynd: XYZ Films
Mads Mikkelsen í hlutverki sínu í Arctic.

Mikkelsen varð heimsþekktur sem illmennið Le Chiffre í James Bond bíómyndinni Casino Royale árið 2006. Hann hefur síðan meðal annars leikið Igor Stravinsky í frönsku myndinni Coco Chanel & Igor Stravinsky og hlutverk Lúkasar í dönsku myndinni Jagten eftir Thomas Vinterberg. Ferillinn er fjölbreyttur, hann hefur komið að listrænum, skandinavískum kvikmyndum sem og Hollywood-stórmyndum.

Hann segist leggja sig eftir fjölbreytni í hlutverkavali. „En það er samt ekki þannig að ég hugsi með mér: ‚Næst langar mig að reyna eitthvað alveg nýtt.‘ En ég býst við að allir leikarar vilji reyna sig við ólíka hluti. Sumir eru svo heppnir að fólk sér þá ólíkum augum. Og þá fáum við tækifærið. En það er ekki þannig að geri ég hasarmynd að ég vilji ekki leika í einni slíkri strax aftur, það má vel vera. Og hafi ég leikið hetju get ég vel gert það aftur. Þetta er ekki meðvitað heldur komið af því að fólk hefur séð mig gera ólíka hluti og ég svo verið beðinn um að leika ólík hlutverk. Ég býst við að flestir leikarar vilji hafa það þannig.“

Indælt ef skúrkahlutverkin eru góð

Mikkelsen er iðulega valinn í hlutverk skúrksins og hann hefur kenningu um af hverju svo sé. „Hvað snertir amerískar myndir og hlutverk skúrksins þá eru þeir hrifnir af því að skúrkurinn tali með hreim. Hann má ekki vera hreinræktaður Bandaríkjamaður. Við höfum séð breska leikara í slíkum hlutverkum, þýska sömuleiðis og svo kom að því að danskir leikarar yrðu valdir í hlutverk óþokka. Það er indælt ef hlutverk skúrksins eru góð.“

Hann þarf ekki að hugsa sig lengi um þegar hann er spurður að því hvaða þrjótur sé í mestu uppáhaldi – Hannibal Lecter. Mikkelsen lék hann í þáttunum Hannibal, sem spönnuðu þrjár þáttaraðir. „Eitthvað heillar við karakterinn og ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að leika hann í þrjú ár.“

Mikkelsen lék Hannibal Lecter í samnefndri þáttaröð í þrjú ár.

Hann er sáttur við þá stefnu sem ferill hans hefur tekið. „Þetta er indælt eins og það er nú. Ég verð undrandi í hvert sinn sem mér er boðið upp á eitthvað sem mér líkar. Og þá á það hug minn allan og metnað, það verkefni. Ég hef ekki snert á ákveðinni gerð mynda sem ég gæti vel hugsað mér að leika einhvern tímann í. Ég ólst upp við kvikmyndir 8. og 9. áratugarins og þá horfði ég á mikið á hryllingsmyndir og uppvaknings-kvikmyndir, ég gæti hugsað mér að leika í slíku. Eða kung-fu.“

Mads Mikkelsen fær verðlaun RIFF fyrir framúrskarandi listrænan leik og var viðstaddur opnun hátíðarinnar í gær. Hann verður á landinu til 2. október og situr fyrir svörum í Bíó Paradís í dag og um helgina. 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Níu ræmur á RIFF sem ekki má missa af

Menningarefni

Mads Mikkelsen heiðursgestur á RIFF

Kvikmyndir

Í kapphlaupi við móður náttúru

Menningarefni

Rogue One: Star Wars saga sem gengur upp