Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Best að skríða á maganum

17.06.2019 - 12:39
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Laxá í Kjós er óvenju vatnslítil enda hefur varla fallið í hana rigningardropi í rúmar þrjár vikur. Veiðimenn eru hvattir til að skríða á maganum að bökkum árinnar til þess að fæla ekki þá laxa sem þó ganga í ána. 

Ásýnd Laxár í Kjós er nokkuð breytt frá því sem venjulega er í júnímánuði. 

„Aðstæður eru krefjandi, lítið vatn. Þá reynir bara meira á okkur veiðimenn,“ segir Jón Þór Júlíusson, framkvæmdastjóri veiðifélagsins Hreggnasa.

Er óvenjulítið vatn í henni?

„Já, það er það miðað við árstíma. Mér dettur í hug 2007, en júní kannski ekki jafn lág vatnsstaða og er núna,“ segir Jón.

Vitið þið hvort það sé einhver lax í ánni núna?

„Það eru komnir fiskar já, töluvert síðan,“ segir Jón.

Veiði í Laxá hefst um helgina. 

„Við erum bara uppseldir langt fram eftir sumri,“ segir Jón.

Engin er rigningin til að gára vatnsborðið og þess vegna sér laxinn vel upp úr ánni og veiðimenn á bökkunum. 

„En annars hefur maður oft gert eina bestu veiðina í sól. En það þarf bara að fara að varlega, skríða á hnjánum, oft er talað um, en núna þurfum við líklega að skríða á maganum. Það er fínt að hafa smá vetrarforða á maganum svo þú getir borið þig rétt að þessu,“ segir Jón.

„Nú verðum við bara að lengja í taumum og vera með nettari græjur. Nú heyrir maðkveiði og grófari veiðiskapur bara sögunni til enda held ég að það fáist enginn ánamaðkur í þessum þurrki á Íslandi,“ segir Jón.