Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Berlínarmúrinn kominn til Reykjavíkur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Berlínarmúrinn kominn til Reykjavíkur

03.10.2015 - 19:29

Höfundar

Þegar vegfarendur fara um Borgartún og horfa til Höfða blasir nú við þeim fjögurra tonna bútur úr Berlínarmúrnum. Hann er gjöf frá Þýskalandi sem borgarstjóri veitti formlega viðtöku í dag, á degi þýskrar einingar.

Endursameiningu Austur- og Vestur-Þýskalands var minnst hér á landi í dag þegar borgarstjóri veitti viðtöku fjögurra tonna búti úr Berlínarmúrnum. 

Það er engin tilviljun að brotinu hafi verið komið fyrir við Höfða. Þar var leiðtogafundurinn árið 1986, fundur Bandaríkjaforseta og leiðtoga Sovétríkjanna, sem er af sumum talinn hafa markað upphafið að lokum Kalda stríðsins.

Nokkur fjöldi fólks var viðstaddur athöfnina, meðal annars sendiherrar Bandaríkjanna og Rússlands. Sendiherra Þýskalands, Herbert Beck, var jafnframt viðstaddur og sagðist ánægður með að múrinn væri kominn hingað. „Ég tel það mjög fínt að hann skuli vera í Reykjavík en ekki í Þýskalandi lengur. Ég tel þetta vera verðugt tákn fyrir lýðræði og breytinguna frá einræði til frelsis. Og Íslendingar eru afar frjálslynd þjóð svo að þetta er ágætur vitnisburður þess. Ég er alsæll að sjá þetta hér," sagði Herbert. 

Brot úr Berlínarmúrnum hafa verið gefin víða um heim en það er listamiðstöðin Neu West Berlin sem stendur fyrir því. Hugmyndin að því að flytja eitt þeirra fyrir til Reykjavíkur kviknaði fyrir ári síðan. „Þegar ég fékk hugmyndina hafði ég samband við borgarstjórann í Reykjavík í gegnum samfélagsmiðla. Hann svaraði mér á innan við fjórum tímum. Þá hófst ferlið sem lauk loks hér í dag,“ segir Jan Paulus, fulltrúi Neu West Berlin.