Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Beri ekki ábyrgð á samfélagsumræðu

Mynd: RÚV / RÚV
Fanney Birna Jónsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, segir að blaðið standi hvort tveggja við forsíðufrétt sína frá í gær og fyrirsögn. Hún vísar á bug orðum verjanda annars mannanna sem kærðir hafa verið fyrir nauðgun um að Fréttablaðið beri ábyrgð á ummælum um mennina á samfélagsmiðlum í gær og nafn- og myndabirtingu af þeim.

Í fyrirsögn Fréttablaðsins í gær sagði að íbúð í Hlíðunum hefði verið útbúin til nauðgana. Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sagði í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöld að það væri ekki rétt sem kæmi fram í fyrirsögn að íbúðin hefði verið sérútbúin til kynferðisbrota.

„Alda Hrönn talar um það að ekki sé rétt að íbúðin hafi verið sérútbúin til nauðgana. Enda er það ekki það sem Fréttablaðið hélt fram. Alda ræðir sérstaklega þetta hugtak útbúið í Fréttablaðinu í dag og kemur inn á það að hugtakið sé matskennt,“ sagði Fanney Birna í Morgunútvarpinu á Rás 2. „Við höfðum heimildir fyrir því að það séu þarna tæki og tól sem voru notuð, og Alda staðfestir það, notuð í ofbeldistilgangi."

Blað ekki ábyrgt fyrir umræðu á samfélagsmiðlum

Hún vísaði einnig á bug orðum Vilhjálms Vilhjálmssonar, verjanda annars mannanna sem hafa verið kærðir og talsmanns þeirra beggja. Hann sagði í Morgunútvarpinu að Fréttablaðið væri ábyrgt fyrir því sem gerðist í gær, þegar nöfn mannanna og myndir af þeim hefðu verið birtar á samfélagsmiðlum og jafnframt mynd af barni annars þeirra. „Nei, alls ekki. Fréttablaðið birti ekki nöfn þessara manna. Það gerðu aðrir, þaðan af síður myndir af þeim eða börnunum þeirra, og getur aldrei verið ábyrt fyrir því sem einstaklingar úti í bæ ákveða að gera.“

„Hann hefur hagsmuna að gæta í þessu máli fyrir hönd sinna skjólstæðinga og hið besta mál að hann sé tekinn til starfa fyrir þá enda eiga þeir rétt á því. En hann er náttúrulega bara að flytja þetta mál hérna hjá ykkur áðan og hann ber að skilja undir því yfirskyni," sagði Fanney um Vilhjálm. Hann lýsti því yfir í Morgunútvarpinu á Rás 2 að hann krefðist 10 milljóna króna bóta frá Fréttablaðinu fyrir hvorn mannanna um sig.

Lokasetning í stað fyrirsagnar

Fanney segist telja að það sé ekki fyrirsögn forsíðufréttarinnar í gær heldur síðasta setning hennar sem hafi haft mest áhrif á fólk. Í þeirri setningu var sagt að mennirnir hefðu ekki verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Það taldi Fanney að bryti gegn siðferðisvitund fólks. Hún rifjaði upp að fyrir skemmstu hefði ógæfukona fundist með þýfi og verið úrskurðuð í gæsluvarðhald og einangrun. „Ég held að þessi mismunur á því hvernig þessu úrræði er beitt, þarna er alla vega grunur um samverknað þegar kemur að kynferðisbroti, það er grunur um ítrekun, það er að segja tvö brot, og ég held að fólk hafi ekki sætt sig við það að matið sé með þessum hætti. Ég held að fólk sjái fyrir sér að lögreglan nýti þau úrræði sem hún hefur til að tryggja öryggi þeirra.

Dómur Hæstaréttar sem Fanney vísar til er að líkindum mál þar sem þrennt var úrskurðað í gæsluvarðhald og einangrun 14. og 15. október síðastliðinn. Fólkið var grunað um ellefu brot sem framin voru 8. október, sama dag og fólkið var handtekið. Lögregla fór fram á gæsluvarðhald og einangrunarvist svo fólkið gæti ekki samhæft framburð sinn og haft áhrif á sönnunargögn og vitni.