Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Bergur Ebbi: Á milli spjaldanna

Mynd með færslu
 Mynd: George Wang

Bergur Ebbi: Á milli spjaldanna

30.08.2016 - 10:05

Höfundar

Í „Á milli spjaldanna“ forvitnumst við um hvaða bækur valdir lesendur hafa lesið í sumar, nú þegar haustið nálgast.

Bergur Ebbi Benediktsson, rithöfundur, tónlistarmaður, lögfræðingur og uppistandari deilir með okkur bestu bókinni sem hann las í sumar, hverri hann hafi hreinlega gefist upp á og hver sakbitna sælan hafi verið.

Besta bókin sem ég las í sumar


Mynd: Knopf

„Besta bókin sem ég las í sumar heitir M-Train eftir Patti Smith. Þetta eru hversdagslegar lýsingar sjötugrar konu og upplifanir á daglegu lífi. Hún talar mikið um kaffi. Þetta virkar kannski leiðinlegt en þetta er náttúrulega sjálf Patti Smith – rokk-ljóðskáld og Ameríkani, það verður ekki mikið svalara.

Mér finnst reyndar bestu bækurnar oftast endurminningar eldri kvenna – og ekki verra ef þær eru sérvitrar og tengdar New York. Ég er til dæmis enn að jafna mig á endurminngum Sonju de Zorilla sem komu út 2004. Sú bók breytti mér meira en nokkur Dickens eða Victor Hugo.“

Bókin sem ég gafst upp á


Mynd: Dey Street Books

„Ég var einnig djúpt sokkinn í hugleiðingar annarrar eldri rokk-konu. Kim Gordon úr Sonic Youth. Bókin heitir Girl in a Band. Ég gafst samt upp á bókinni þegar ég var rúmlega hálfnaður. Þetta var bara of kúl fyrir mig. Of miklar stuttermabola gítar-surgs hugleiðingar. Eða hvað? Það hljómar reyndar mjög vel. Kannski ætti ég að gefa þessari bók annað tækifæri.“

Sakbitna sælan


Mynd: Knopf

„Sakbitna sælan er enn önnur ævisaga Ameríkana. Open er sjálfsævisaga tennisleikmannsins Andre Agassi. Bók sem kom út 2009 og ég skil ekki hvers vegna ég hef ekki lesið fyrr.

Andre er sonur íransks innflytjanda af armenskum ættum, Emmanuel (síðar Mike) Agassi. Pabbinn var harður náungi sem gekk um með skammbyssu og lenti í útistöðum við fólk. Hann þjálfaði Andre litla frá blautu barnsbeini og markmiðið var að breyta honum í besta tennisleikmanns heims – sem tókst. Þetta fór fram í Las Vegas á 8. og 9. áratugnum – allt frá upphafi var mikið um veðmál, svindl og eiturlyf í kringum Andre. Hann var sjálfur nokkuð ráðvilltur, mætti með sítt hár og í gallabuxnastuttbuxum á stórmótin í Evrópu. Vann Wimbledon 1992 og lenti síðar í rugli – fór að reykja crystal meth, en náði sér upp úr því aftur.

Hann er fyrst og fremst tilfinningaríkur en líka vinnusamur amerískur gullgrafari. Æðislegur karakter og frábær íþróttamaður.“

Tengdar fréttir

Menningarefni

Halla Oddný Magnúsdóttir: Á milli spjaldanna

Bókmenntir

Eliza Reid: Á milli spjaldanna